Eitt hundrað aðilar frá Securitas í flugstöðinni
- Nýr samningur við Isavia um öryggisleit
Securitas hefur skrifað undir samstarfssamning við Isavia um öryggisleit á Keflavíkurflugvelli. Samningurinn innifelur að Securitas mun sinna öryggisleit í verktakahliðum á Keflavíkurflugvelli ásamt öryggisleit komufarþega frá þriðju löndum. Securitas mun taka yfir þjónustuna á næstu dögum og er undirbúningur í fullum gangi. Eftir að þessi nýi samningur tekur gildi verða rúmlega 100 aðilar á vegum Securitas að störfum í Leifsstöð.
Securitas starfrækir útibú á Reykjanesi sem fer ört stækkandi með auknum umsvifum á svæðinu og á Keflavíkurflugvelli. Starfsemi Securitas á flugvöllum og í tengslum við flug er alltaf að aukast. Auk þess að sinna öryggismálum einstakra flugfélaga þá sinnir Securitas öryggisleit, aðstoð við farþega með skerta hreyfigetu (PRM), umsjón með týndum munum ásamt fleiri verkefnum.
Telma Dögg Guðlaugsdóttir, útibússtjóri Securitas Reykjanesi: „Við erum mjög stolt af því að Isavia skyldi velja okkur til þessa verkefnis. Reynsla okkar af sambærilegum verkefnum er mjög góð og samstarf við Isavia í gegnum árin farsælt. Við höfum sinnt sambærilegri þjónustu fyrir Isavia á Reykjavíkurflugvelli til fjölda ára með góðum árangri. Starfsfólki Securitas fjölgar mjög ört hér á Reykjanesi enda hefur samstarfið við United Airlines, Isavia og fleiri gengið vel. Securitas á Reykjanesi er frábærlega staðsett með tilliti til þessara samstarfsaðila, auk skrifstofu okkar á Iðavöllum erum við nú með skrifstofuaðstöðu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir okkar starfsfólk til að mæta auknum starfsmannafjölda og þörfum þeirra.“
Um Securitas
Securitas er forystufyrirtæki á sviði öryggismála á Íslandi. Starfsmenn Securitas eru rúmlega 500 og þjóna yfir 20.000 viðskiptavinum, þar með talið flestum af stærstu fyrirtækjum landsins. Stjórnstöð fyrirtækisins er fullmönnuð allan sólarhringinn, alla daga ársins.
Þjónustuframboð Securitas spannar öll svið mannaðrar gæslu og fjargæslu. Söluvörur fyrirtækisins tengjast öryggismálum, svo sem innbrotaviðvörunarkerfum, brunaviðvörunarkerfum, myndavélakerfum, aðgangsstýrikerfum og slökkvikerfum.