Eitt besta ár í sögu Fríhafnarinnar
„Það er óhætt að segja að árið 2012 hafi verið eitt besta rekstrarár í sögu Fríhafnarinnar og starfsemin var líka ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri en á annað hundrað manns starfa í þessari vinsælu verslun í flugstöðinni.
Starfsfólkið helsta auðlindin
„Það er margt sem stendur upp úr á árinu 2012. Það hefur nánast verið ævintýralegt fyrir margra hluta sakir en allt byggist þetta á þeirri miklu farþegaaukningu sem varð á árinu. Það skiptir sköpum í rekstri sem þessum að vera með gott vöruúrval á réttu verði. Við berum okkur stöðugt saman við samkeppnisaðila okkar, sem fyrst og fremst eru flugvellir erlendis og auðvitað í sumum tilvikum verslanir í erlendum borgum. Það sem við höfum þó hér á landi og er án efa okkar helsta samkeppnisforskot, það er starfsfólkið. Ég þori nánast að fullyrða að þjónustan og þekkingin á þeim vörum sem við bjóðum upp á sé meiri hér en á nágrannaflugvöllum okkar. Starfsfólkið er okkar helsta auðlind og það eru forréttindi að fá að vinna með þeim hópi sem þarna starfar og margir hverjir hafa gert svo árum og jafnvel áratugum skiptir. Það hafa margir komið að máli við mig og rætt þjónustuna og viðmótið í Fríhöfninni, að það sé einstakt og ég er svo hjartanlega sammála því.
Læra allt um skoska viskíið
Það markverðasta á árinu sem snýr að starfsmönnum okkar er Fríhafnarskólinn.
Fríhafnarskólinn var settur í aftakaveðri í janúar á þessu ári. Í upphafi var rætt um sjálfstraust og hvernig það nýtist í starfi, markaðsfræði, kauphegðun og fleira og fleira. Í næstu lotu sem hefst í janúar 2013 verður farið yfir framstillingar í verslunum og í vínskóla svo eitthvað sé nefnt. Það er óhætt að segja að Fríhafnarskólinn hafi vakið mikla athygli og hann hefur skilað starfsmönnum umtalsverðri launauppbót það sem af er ári. Þar sem skólinn varð til í kjölfar síðustu kjarasamninga þá höfðu starfsmenn val um að setjast á skólabekk en óhætt er að segja að nærri allir starfsmenn hafi gripið tækifærið fegins hendi. Við ætlum svo að enda námið á vinnu- og námsferð til Skotlands þar sem starfsmenn Fríhafnarinnar læra allt um viskí. Hvernig það er búið til, átöppun, hvernig tunnur eru gerðar og svo framvegis. Það verður án efa skemmtilegur endapunktur á námi sem skilar bæði starfsmönnum og fyrirtækinu mjög miklu.
Fyrirmyndarfyrirtæki
Fríhöfnin var valin Fyrirmyndarstofnun á vegum SFR árið 2012. Þar sem meirihluti starfsmanna tilheyrir starfsmannafélagi ríkisstofnana þá vorum við valin fyrirmyndarstofnun en ekki fyrirtæki, en Fríhöfnin er eignarhaldsfélag. Fríhöfnin varð í 4. sæti af 93, í flokknum stórar stofnanir sem Stofnun ársins. Þeir þættir sem mældir voru eru: ánægja í starfi, stolt, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækisins og trúverðugleiki stjórnenda. Þetta verður að teljast mjög góður árangur og er ég sem framkvæmdastjóri afar stolt af mínu fólki og þeim árangri sem við höfum náð með fyrirtækið. Það er fólkið sjálft sem velur þetta, því er árangurinn enn ánægjulegri,“ segir Ásta Dís.