Einn verðmætasti fiskur í heimi alinn upp í heitum Reykjanessjó
Fiskeldið Stolt Sea Farm elur upp Senegalflúru, einn verðmætasta matfisk í heiminum, með affallsvatni frá HS orku. Seiðin koma frá eldisstöð fyrirtækisins á Spáni og er eldi Senegalflúrunnar í kringum fimmtán mánaða ferli frá því að seiðin koma til landsins. Tegund þessi er hágæðaflatfiskur sem matreiddur er á veitingastöðum. Stolt Sea Farm var stofnað í Noregi árið 1972 og er nú með starfsemi í fimm löndum. Starfsemi fiskeldisins hér á landi hófst 2012 en framleidd eru um 450 tonn af Senegalflúru á ári sem flutt er út til Evrópu og Bandaríkjanna.
Fiskeldið var reist á sjávarsíðunni við Reykjanesvirkjun og nýtir heitt affallsvatn frá virkjuninni en þaðan streymir um 35 gráðu vatn sem eigendur Stolt Sea Farm nýta sér til eldisins. Af stað fer ferli þar sem heita vatnið er blandað með köldu vatni niður í hæfilegt hitastig fyrir fiskinn eða um tuttugu gráður. „Það þýðir að framleiðsluferlið er mjög sjálfbært og umhverfisvænt. Velferð fisksins er afar mikilvæg og er hann því alinn upp við bestu mögulegu aðstæður,“ segir Bryndís Jónasdóttir, skrifstofustjóri Stolt Sea Farm á Íslandi.
Seiðin vaxa í eldinu og eru flokkuð eftir stærðum í stór ker. Þegar fiskurinn er orðinn hæfilega stór, eða um 200 til 1.000 grömm, er hann svo fluttur út til matreiðslu á dýrum veitingahúsum í Evrópu og Bandaríkjunum en fiskurinn er talinn einstaklega bragðgóður. Þá má nefna að hann er einnig borinn fram á tveimur veitingastöðum í Reykjavík.
Covid hafði áhrif á starfsemi margra fyrirtækja og var starfsemi fiskeldisins engin undantekning. Margir veitingastaðir um allan heim minnkuðu eða hættu starfsemi og því var minni sala á fiski. Nú þegar rekstur veitingastaða er kominn aftur á fullt er allt komið aftur á fullan snúning hjá eldinu. „Starfsemin er í raun komin aftur í sama far og fyrir Covid,“ segir Daniel Tiago M. R. Fernandes, seiðaeldisstjóri Stolt Sea Farm.
Stolt Sea Farm var með fisktegundina styrju í tilraunaeldi en hefur nú fengið leyfi til tilraunaeldis á gullinrafa og komu fyrstu seiðin af þeirri tegund til eldisins sumarið 2021. Gullinrafi er eftirsóttur í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu og er aðallega notaður í sushi-gerð. Bryndís segir árangurinn sem kominn er lofa góðu.
Auðlindagarðurinn
HS Orka leggur áherslu á að allir auðlindastraumar sem falla til við framleiðslu rafmagns og heits vatns séu nýttir. Auðlindin er dýrmæt og fjölnýting hennar stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins. Albert Albertsson, hugmyndasmiður HS Orku, hefur hvatt starfsmenn til að lifa og starfa í náttúrunni en ekki með henni. Auðlindagarðurinn er afsprengi þessa hugsunarháttar og styrkir nýtingu á jarðhitaauðlindum. Eitt af fyrirtækjunum í Auðlindagarðinum er Stolt Sea Farm.
Starfsmenn Stolt Sea Farm gróðursettur fimmtíu tré
Stolt Sea Farm á Reykjanesi gróðursetti 50 tré í samvinnu við Skógræktarfélag Suðurnesja í Sólbrekkuskógi á dögunum. Tilefni gróðursetningarinnar er 50 ára afmæli Stolt Sea Farm á árinu.
Stolt Sea Farm er umhugað um umhverfið og var því ákveðið að gróðursetja tré á Reykjanessvæðinu. Stolt Sea Farm er staðsett í fimm löndum í Evrópu og eru viðburðir sem stuðla að bættu umhverfi haldnir í hverju landi fyrir sig í tilefni af 50 ára afmælinu.