Einar Hannesson ráðinn sparisjóðsstjóri hjá Spkef sparisjóði
Stjórn Spkef sparisjóðs hefur ráðið Einar Hannesson sem sparisjóðsstjóra. Einar er með B.Sc. gráðu í iðnaðartæknifræði frá Tækniháskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál og rekstrarstjórnun.
Undanfarin ár hefur Einar gegnt starfi forstöðumanns flugafgreiðslusviðs hjá Icelandair Ground Services (IGS) á Keflavíkurflugvelli, dótturfélagi Icelandair Group. IGS er í dag eitt af stærstu og fjölmennustu fyrirtækjum á Suðurnesjum. Helstu verkefni hans hafa verið stjórnun, stefnumótun, áætlanagerð, fjármálastjórn, mannauðsstjórn, samningagerð og samskipti við viðskiptavini sem og birgja.
Úr fyrri störfum hefur Einar einnig víðtæka reynslu af markaðs- og sölumálum, verkefnastjórnun sem og vöru-, og viðskiptaþróun. Einar hefur á undanförnum árum sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum og setið í stjórnum ýmissa félagasamtaka.
„Ég hlakka til að takast á við það uppbyggingarstarf sem framundan er hjá Spkef sparisjóði. Tækifærin er fjölmörg en megin verkefnið sem framundan er verður að byggja upp traust að nýju á milli sparisjóðsins og þeirra samfélaga sem hann þjónar. Sparisjóðurinn er afar mikilvæg stofnun í sínu nær samfélagi. Fyrsta verk mitt verður að kynnast innviðum sparisjóðsins, þ.e. starfsfólki og rekstri sjóðsins. Mitt hlutverk verður svo að leiða mótun framtíðarsýnar og markmiða ásamt stjórn og því öfluga starfsfólki sem vinnur hjá sparisjóðnum í dag“, segir Einar Hannesson.
Einar er kvæntur Magndísi Andrésdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau þrjú börn. Fjölskyldan hefur búið í Reykjanesbæ síðastliðin sex ár.
Einar mun taka við starfi sparisjóðsstjóra 1. desember næstkomandi.
Um þrjátíu manns sóttu um starfið og samkvæmt heimildum VF voru einungis fjórir búsettir á Suðurnesjum í þeim hópi. Búist er við tilkynningu um ráðningu í starf markaðsstjóra Spkef sparisjóðs á næstunni en þessi störf voru auglýst á sama tíma seint í sumar.