Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Eignaumsjón semur við HS Orku um afsláttarkjör
Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku og Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, handsala samkomulag um raforkuviðskipti.
Laugardagur 25. nóvember 2017 kl. 09:00

Eignaumsjón semur við HS Orku um afsláttarkjör

- á raforku fyrir viðskiptavini sína

Eignaumsjón og HS Orka hafa gert með sér samkomulag um raforkuviðskipti sem skilar viðskiptavinum Eignaumsjónar föstum afslætti af smásöluverði við kaup á raforku frá HS Orku. Samningurinn, sem hefur þegar tekið gildi, nær til raforkunotkunar í sameignum allra húsfélaga sem nýta sér þjónustu Eignaumsjónar. 
 
Jafnframt geta nýtt sér þessi afsláttarkjör eigendur íbúða eða eignarhluta í fjöleignahúsum, atvinnuhúsum og öðrum fasteignum sem eru í viðskiptum við Eignaumsjón.
 
Afsláttarkjör samkomulagsins milli Eignaumsjónar og HS Orku eru í krafti fjöldans en Eignaumsjón annast rekstur um 400 húsfélaga, rekstrarfélaga og atvinnuhúsnæðis, með það að markmiði að ná fram sem mestri hagkvæmni í rekstri þeirra.
 
Sem dæmi um ávinning af samkomulaginu er stórt húsfélag (174 íbúðir) í nýlegu húsi að spara sér um 250.000 krónur á ársgrundvelli frá því sem áður var, við kaup á rafmagni vegna sameignar húsfélagsins. Fyrir millistórt húsfélag (55 íbúðir) í nýlegu húsi skilar samningurinn um 100.000 króna sparnaði á ári við kaup á rafmagni vegna sameignar húsfélagsins. 
 
Eigendur einstakra íbúða eða eigna sem tilheyra húsfélagi eða atvinnuhúsnæði sem er í þjónustu hjá Eignaumsjón, alls um 9.300 íbúðir/eignir, geta einnig orðið þátttakendur í þessu samkomulagi félaganna. Þeim sem það kjósa stendur til boða að fá sömu afsláttarkjör á rafmagni til eigin nota hjá HS Orku, svo lengi sem viðkomandi húsfélag sem þeir tilheyra er í þjónustu hjá Eignaumsjón. 
 
Afsláttarkjör Eignaumsjónar og HS Orku gilda einvörðungu um kaup á almennri, óskerðanlegri raforku en ekki um raforkuflutning. Samningurinn gildir til ársloka 2018 og endurnýjast sjálfkrafa til tveggja ára í senn, nema honum sé sagt upp með lögformlegum hætti.
 
HS Orka
 
HS Orka hefur verið leiðandi í framleiðslu á endurnýjanlegri orku í 40 ár. Hjá fyrirtækinu starfar öflugur hópur sérfræðinga með mikla reynslu á sínu sviði. HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir, Orkuverið Svartsengi og Reykjanesvirkjun.
 
Eignaumsjón
 
Eignaumsjón tók til starfa árið 2001 og er brautryðjandi á Íslandi í heildarþjónustu við rekstur atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Félagið hefur sérhæft sig í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög um fasteignir og býður upp á heildarlausnir í rekstri fjöleignarhúsa með það að markmiði að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði og auðvelda störf eigenda og hússtjórna.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024