Edda Rut ráðin markaðs- og samskiptastjóri Eimskips
Edda Rut Björnsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og samskiptastjóri Eimskips. Edda Rut hefur 20 ára fjölbreytta reynslu af vinnumarkaði. Hún starfaði í upplýsingatæknigeiranum um árabil en síðustu 12 ár hefur hún starfað hjá Íslandsbanka m.a. í markaðsdeild en nú síðast sem forstöðumaður á Fyrirtækja- og fjárfestasviði bankans. Þar hefur hún m.a. unnið að markaðsmálum, viðburðum, vöruþróun, upplýsingatækni ásamt sölu- og þjónustumálum gagnvart stærstu viðskiptavinum bankans.
„Við erum mjög ánægð að fá Eddu Rut til liðs við Eimskip. Hún hefur fjölbreytta reynslu sem mun nýtast vel þar sem við erum að sameina alla málaflokka sem falla undir markaðs- og samskiptamál, þar með talið fjárfestatengsl, á eitt svið,“ segir Vilhelm Þorsteinsson forstjóri Eimskips á vef félagsins.
Edda Rut er með BSc. í viðskiptafræði með áherslu á tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er gift Tryggva Björnssyni framkvæmdastjóra og eiga þau fjórar dætur. Edda Rut er Suðurnesjakona, uppalin í Garðinum.