Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

easyJet þriðja umsvifamesta flugfélagið hér á landi
Föstudagur 29. mars 2013 kl. 13:58

easyJet þriðja umsvifamesta flugfélagið hér á landi

Flugfélagið easyJet ákvað á miðvikudag að ríflega tvöfalda starfsemi sína á Íslandi. Flogið verður á þrjá áfangastaði til og frá Íslandi, 11 flug í viku, allt árið um kring. Félagið mun fljúga á milli Íslands, Lundúna, Edinborgar og Manchester. Þar af til Lundúna sex daga vikunnar. Lægsta fargjald er 4.800 kr.

easyJet hóf að fljúga til Íslands fyrir akkúrat einu ári síðan. Talning í flugstöðinni sýnir að breskum ferðamönnum hefur fjölgað um 35%.

„Í dag, á ársafmæli starfsemi easyJet á Íslandi, er ánægjulegt að tilkynna stóraukna þjónustu, hvort heldur við Íslendinga á leið til Evrópu eða erlenda ferðamenn sem vilja heimsækja landið. Við erum ánægð að sjá áhrifin sem við höfum haft á aukningu breskra ferðamanna sem heimsækja Ísland,“ segir í tilkynningu sem send var fjölmiðlum á miðvikudag.

easyJet, útbreiddasta flugfélag Evrópu, kynnti vetraráætlun félagsins fyrir veturinn 2013-2014 í dag. Meðal þess sem hæst ber í áætluninni er að flugfélagið mun meira en tvöfalda starfsemi sína hér á landi og halda úti þremur flugleiðum frá Íslandi allt árið um kring. Vikulegum ferðum easyJet til Lundúna mun fjölga úr fjórum í sex á viku frá með febrúar 2014. Áfram verða tvær ferðir á viku bæði til Edinborgar og Manchester, en frá og með febrúar 2014 fjölgar Manchester-flugunum í þrjú á viku. Þetta þýðir að easyJet verður þriðja umfangsmesta flugfélagið í flugi til og frá Íslandi með 11 flug á viku, allt árið um kring.

Lægsta verð til Lundúna með sköttum 4.800 kr
Þegar hefur verið opnað fyrir sölu miða í öll flug næstu 12 mánuði á heimasíðu félagsins www.easyjet.com. Aðferð easyJet er að láta þá sem fyrstir bóka njóta hagstæðustu fargjaldanna. Sem dæmi má nefna að lægsta fáanlega fargjald í vetraráætlun easyJet til Edinborgar frá Keflavík er nú í kringum 6.300 kr. (aðra leið með sköttum), til Lundúna í kringum 5.500 kr. (aðra leið með sköttum) og til Manchester í kringum 4.800 kr. (aðra leið með sköttum).



Hugh Aitken, framkvæmdastjóri hjá easyJet í Bretlandi:
„Í dag, á ársafmæli starfsemi easyJet á Íslandi, er ánægjulegt að tilkynna stóraukna þjónustu, hvort heldur við Íslendinga á leið til Evrópu eða erlenda ferðamenn sem vilja heimsækja landið. Við höfum trú á að Ísland verði einn af vinsælustu áfangastöðunum í Evrópu á næstu árum. Við hjá easyJet leggjum mikla áherslu á að skila vexti og fjárfestingu til þeirra landa sem við fljúgum til. Því er gleðilegt að sjá mikla aukningu breskra ferðamanna sem heimsækja Ísland. Við erum líka stolt af því að geta boðið íslenskum neytendum upp á fleiri valkosti og meiri sveigjanleika þegar kemur að ferðalögum. Virk samkeppni í flugi er öllum Evrópubúum mikilvæg, en ég geri ráð fyrir að hún sé sérstaklega mikilvæg fyrir eyríki eins og Ísland“.
 

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar:
„Við erum í skýjunum með þessa ákvörðun easyJet. Það er stór áfangi í sögu flugvallarins þegar að stórt alþjóðlegt flugfélag er farið að halda úti þremur flugleiðum til og frá landinu allt árið um kring. Þessi aukna starfsemi easyJet mun án efa hafa jákvæð áhrif á ferðaiðnaðinn hér á landi, þar sem félagið er í aðstöðu til að ná til alveg nýrra markhópa ferðamanna. Þar er ég t.d. að tala um alla þá sem heimsækja heimasíðu easyJet í leit að spennandi áfangastöðum til að skoða og þær rúmlega 6 milljónir manna sem eru á póstlistum easyJet. Við höfum nú þegar séð áhrifin sem easyJet hefur haft á þessu fyrsta starfsári. Fjöldi gesta frá Bretlandi sem fara um Keflavíkurflugvöll hefur aukist um 35% það sem af er þessu ári, borið saman við sama tímabil í fyrra. easyJet virðist, ef marka má þessar fréttir í dag, deila þeirri trú með okkur að Ísland eigi enn mikið inni sem ferðamannastaður“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024