1. maí 2024
1. maí 2024

Viðskipti

Dýralæknastofa Suðurnesja 20 ára
Dýralæknirinn Maja Stojchevska skoðar ungan hund og það fer vel á með þeim. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 1. febrúar 2024 kl. 09:47

Dýralæknastofa Suðurnesja 20 ára

– Kjósa að styrkja Grindvíkinga í stað veisluhalda

Í þessari viku, nánar tiltekið þann 31. janúar, eru tuttugu ár liðin frá því Dýralæknastofa Suðurnesja hóf starfsemi. Einn dýralæknir og einn aðstoðarmaður stóðu vaktina til að byrja með í tvo tíma á dag í litlu húsnæði á Hringbrautinni í Keflavík. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú starfa hjá stofunni sex starfsmenn, þar af tveir dýralæknar auk tveggja í hlutastarfi sem sinna öllum þeim fjölbreyttu verkefnum sem til falla.

Stofnendur stofunnar höfðu það að markmiði á sínum tíma að veita dýraeigendum á Suðurnesjum alla almenna dýralæknisþjónustu enda mikilvægt að geta sótt slíka þjónustu í heimabyggð. Undanfarin ár hefur megináherslan verið á hunda og ketti en dýralæknar stofunnar fara einnig í vitjanir í hesthús og fjárhús á Suðurnesjum og jafnvel heimahús sé þess óskað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Helgi Hólm, framkvæmdastjóri stofunnar, minnist á að þegar stofan var stofnuð hafi opnunartíminn verið á milli fimm og sjö á daginn, eftir vinnutíma enda var starfsfólkið í annarri dagvinnu.

„Síðan þá hefur stofan vaxið og dafnað enda hefur gæludýrum fjölgað verulega samfara fólksfjölgun á svæðinu. Svo varð mikil aukning í Covid þegar næstum allir fengu sér félaga,“ segir Helgi. „Stofan var fyrst á Hringbraut en árið 2008 flutti hún upp á Flugvelli og var þar þangað til að við fluttum í núverandi húsnæði í byrjun árs 2016. Við höfum reynt að gera aðstöðuna eins heimilislega og kostur er, enda á dýrunum og eigendum þeirra að líða vel hjá okkur.“

Á Dýralæknastofu Suðurnesja er mikið lagt upp úr því að hafa góðan tækjabúnað og er stofan er vel tækjum búin með blóðgreiningartækjum, myndgreiningartækjum (röntgen og sónar), svæfingartæki, laser til meðhöndlunar auk búnaðar til tannlækninga og Helgi segir að þrátt fyrir að vera eina dýralæknastofan á Suðurnesjum, og samkeppnin þar af leiðandi ekki mikil, þá berst orðsporið víða og stofan fái marga viðskiptavini af höfuðborgarsvæðinu.

Starfsfólkið tekur dýrin sín stundum með í vinnuna – það gerir allt miklu heimlislegra.
Nýjasti tækjakostur stofunnar er fullkomið tæki til myndgreiningar.
Þessi þrjú voru að koma með þrjá fallega hvolpa í heilsufarsskoðun.

Þakklæti til allra dýraeigenda ofarlega í huga

„Í gegnum tíðina hefur stofan eignast marga góða fastakúnna sem gerir starfið enn skemmtilegra og meira gefandi – og hefur starfsfólk stofunnar upplifað gleðistundir en einnig sorgarstundir með mörgum dýraeigendum. Á þessum tímamótum er þakklæti til allra dýraeigendanna ofarlega í huga,“ segir dýralæknirinn Hrund Hólm, einn eigenda og stofnandi dýralæknastofunnar.

„Til stóð að fagna tvítugsafmælinu með ýmsum hætti, m.a. með veisluhöldum og afsláttum, en fallið var frá þeim fyrirætlunum og hefur áætlaðri upphæð verið veitt í neyðarsöfnun fyrir Grindvíkinga, enda hefur stofan átt fjölmarga góða og trausta viðskiptavini úr Grindavík öll tuttugu árin. 

Afmælisterta verður þó í boði á afmælisdaginn og 20% afsláttur af fóðri og ýmsu fleiru í afmælisvikunni,“ sagði Hrund svo að lokum.