Dutyfree Fashion verslunin glæsileg eftir andlitslyftingu
Í gær, 7.júlí 2011, var tískuvöruverslun Fríhafnarinnar Dutyfree Fashion opnuð aftur eftir gagngerar endurbætur. Fríhöfnin tók við rekstri verslunarinnar í júlímánuði 2010 af Icelandair. Verslunin hefur verið stækkuð um 65 m2, og er nú um 270 m2 að stærð og úrvalið af fatnaði, skóm og fylgihlutum hefur aldrei verið meira. Í Dutyfree Fashion má finna þekkt vörumerki fyrir konur og karla á borð við Boss, Lloyd og Burberry. Þess má geta að Dutyfree Fashion er eina verslunin á Íslandi sem hefur á boðstólum fatnað frá Burberry.
Íslensk hönnun er í forgrunni eftir endurbæturnar og fá íslensku merkin nú að njóta sín enn betur en áður. Ný merki hafa bæst við, þannig að nú ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Að sögn Ástu Dísar Óladóttur, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, hefur áhugi á íslenskri hönnun aukist mikið undanfarin ár bæði hjá íslenskum og erlendum farþegum. ,,Breytingunni á versluninni er m.a. ætlað að koma til móts við óskir viðskiptavina okkar um fjölbreytta íslenska hönnun.“
Íslensku vörumerkin sem Dutyfree Fashion býður upp á eru Farmers Market, KronKron, Spiral og Ella. Farmers Market er það íslenska merki sem hvað lengst hefur verið í sölu hjá versluninni og er margt nýtt og spennandi að koma frá þeim um þessar mundir, bæði fyrir dömur og herra.
KronKron hefur heldur betur slegið í gegn, eftir einungis þriggja mánaða sölu í Dutyfree Fashion.
Skemmtilegt samspil lita og efnasamsetningar gera hönnunina spennandi og er ljóst að Hugrún og Magni, sem standa á bak við KronKron, eru komin til að vera. Til marks um það er að haustlínan þeirra, sem kemur í sölu í ágúst, er mjög litrík og skemmtileg og full af nýjungum. Dutyfree Fashion hefur verið með skó frá KronKron, sérhannaða fyrir verslunina og fást þeir því hvergi annars staðar og verður svo áfram.
Spiral er tiltölulega nýtt af nálinni hér á landi en bak við það merki standa tvær hugmyndaríkar konur úr Reykjanesbæ, þær Ingunn E. Yngvadóttir og Íris Jónsdóttir. Spíral er með mjög fjölbreytt úrval af kjólum, bolum, leggings og ýmsum fylgihlutum. Þetta er merki sem segja má að margar konur hafa verið að falla fyrir.
Nýjasta merkið ELLA hóf göngu sína í Dutyfree Fashion í dag. Nafnið ELLA kemur frá einum eiganda fyrirtækisins, Elínrósu Líndal. ELLA býður konum klassískan og tímalausan fatnað. Ilmvatnið ELLA, sem Elínrós setti á markað fyrr á þessu ári, DAY&NIGHT, má finna í Fríhöfninni.
VF-Myndir: Eyþór Sæmundsson