Dolfallin yfir „eighties-tímabilinu“
- Opnar hárgreiðslustofu í anda níunda áratugarins
„80's er bara svo ferskt, fólk verður að fara að tékka sig til!“ segir hárgreiðslumeistarinn Eva Björk Sigfúsdóttir sem í vikunni opnaði hárgreiðslustofuna Háráttu við Hafnargötu 54 í Reykjanesbæ. Frænka Evu, Sunna Björgvinsdóttir, á heiðurinn að nafninu sem sameinar eighties-þemað á hárgreiðslustofunni og áráttu Evu fyrir hári.
Hárgreiðslustofa Evu er öll innréttuð í anda eighties-tímabilsins. Í æsku skoðaði hún fjölskyldualbúmin frá níunda áratugnum í gríð og erg og fylgdist grannt með klæðaburði systur sinnar sem er fædd árið 1981. „Mér finnst svo skemmtilegt hvað þetta tímabil var hallærislega töff,“ segir Eva sem hannaði allt útlit hárgreiðslustofunnar sjálf.
„Adam bróðir minn var verkefnastjóri í byrjun og reddaði mér topp iðnaðarmönnum sem unnu verkið, undir minni leiðsögn að sjálfsögðu. Við reyndum að nýta það sem var til og láta okkur detta í hug ódýrar og góðar lausnir. Það var mikið dútl við hvert smáatriði á stofunni.“ Peningakassann fékk Eva til að mynda hjá tvíburasystur mömmu sinnar, Margréti Sumarliðadóttur. Á stofunni er gamall sími sem pabbi Evu fann á vinnustaðnum sínum. „Allir hlutirnir hérna hafa komið til mín af tilviljun og sumt átti ég sjálf fyrir. Ég er listræn og hafði mjög gaman af því að fá útrás með því að innrétta stofuna.“
Hár er aðaláhugamál Evu og því var það stór stund fyrir hana að opna sínu eigin stofu. Hún útskrifaðist sem hárgreiðslusveinn árið 2013 og sem meistari árið 2015. Áður vann hún hjá Arthúsinu í Reykjanesbæ og seinna í smá tíma á stofunni Hársaga. Lengst af hefur Eva starfað á Barbarella í Reykjavík. „Þegar ég var búin að vinna hjá Arthúsinu í smá tíma ákvað ég að taka mig til og fara í ævintýraferð til Reykjavíkur og leigði mér herbergi og treysti á að fá vinnu. Þá bara gekk ég inn á Barbarella sem var að opna þá og fékk vinnu þar. Þar eru miklir fagmenn sem veittu mér mikinn innblástur. Ég fékk mjög góða reynslu þar og líka innsýn í hvernig það er að reka hárgreiðslustofu.“
Eva ætlar að bjóða upp á persónulega þjónustu og gefa sér góðan tíma fyrir hvern og einn viðskiptavin. „Fólk er mismunandi og með mismunandi þarfir. Ég bóka því ekki of þétt því mig langar frekar að gefa mér góðan tíma og veita fólki ráðgjöf um hárið sitt." Til viðbótar við klippingar og litanir sérhæfir Eva sig í permanenti og býður upp á það í öllum stærðum og gerðum, enda er það mjög í anda eighies-tímabilsins.
Afgreiðsluborðið er að sjálfsögðu í 80´s stíl, málað af Evu.