Delta hefur flug til Íslands á morgun
Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines hefur beint áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli til Kennedyflugvallar í New Yorkborg að morgni 2. júní nk. Fyrsta þota Delta, sem er Boeing 757-200, lendir á Keflavíkurvelli klukkan 9:20 og snýr til baka til New York klukkan 10:50. Þetta er í fyrsta sinn í meira en 40 ár sem bandarískt flugfélag hefur reglubundið áætlunarflug til Íslands en það er í samvinnu við evrópska flugfélagið KLM.
„Áætlunarflug Delta gefur Íslendingum gott tækifæri til að ferðast á einum flugmiða til 50 áfangastaða í Bandaríkjunum, Kanada, Suður-Ameríku og eyja Karíbahafsins,“ segir Frank Jahangir, markaðsstjóri Delta í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku. „Áætlunarflug Delta mun styrkja enn betur ferða- og viðskiptatengsl Íslands og Bandaríkjanna og auk þess mun það gefa enn fleiri Bandaríkjamönnum tækifæri til að heimsækja náttúrparadísina Ísland.“
Delta flug 51 á milli Keflavíkur og New York verður starfrækt fimm daga vikunnar að mánudögum og þriðjudögum undanskildum. Farþegaþotan sem fer frá Keflavíkurflugvelli kl. 10:50 að morgni lendir á Kennedyflugvelli kl. 13:05 að staðartíma. Flogið er frá New York til Íslands klukkan 23:35 að kvöldi að staðartíma og þotan lendir á Keflavíkurvelli kl. 9:20 að morgni að íslenskum tíma. Boeing 757-200 þota Delta tekur 154 farþega í almennt farrými og 16 í viðskiptafarrými, sem er margverðlaunað fyrir hátt þjónustustig. Flugstjóri í fyrstu ferðinni verður Vestur-Íslendingurinn John S. Magnusson.
„Ég fagna komu Delta Air Lines inná íslenskan flugmarkað. Bæði Bandaríkin og Ísland eru mjög áhugaverð og kraftmikil ríki, sem hafa upp á svo fjölmargt að bjóða jafnt í ferðamennsku, sem og í viðskiptum. Ég er sannfærður um að Delta muni styrkja enn betur náin og sterk menningartengsl, viðskiptasambönd og aldagömul ættartengsl milli ríkjanna,“ segir Luis E. Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Frá Íslandi flytja þotur Delta t.d. ferskar sjávarafurðir, eldislax og -silung og aðrar útflutningsvörur til Bandaríkjanna og víðar. Hingað mun Delta flytja m.a. neytendavörur, véla- og varahluti, ferska ávexti, grænmeti og margt fleira. Umboðs- og vörumiðlun fyrir flugfrakt Delta er hjá Bláfugli ehf. en Airport Associates á Keflavíkurvelli annast losun og hleðslu vélar Delta.
Þjónustustig um borð í farþegarþotum Delta til New York er í háum gæðaflokki hvort sem um er að ræða á almennu farrými eða Business Elite-viðskiptafarrými. Sætin í almennu farrými eru leðurklædd með sjónvarpsskjá á sætisbaki og máltíðir og drykkjaföng eru innifalin í miðaverðinu. Hinn heimsfrægi matreiðslumeistari Michelle Bernstein, hefur útbúið matseðilinn á viðskiptafarrými. Auk þess geta viðskiptafarþegar valið um 20 nýjar kvikmyndir, fjölda sjónvarpsþátta og þúsundir laga og leikja. Hægt er að bóka flug með Delta og samvinnuflugfélögum á www.delta.com og www.klm.co