Delta gerir Ísland að heilsárs áfangastað
Eitt stærsta flugfélag heims eykur umsvif sín verulega hér á landi í ár með vetrarflugi frá New York og nýrri flugleið.
Síðustu fimm sumur hafa þotur bandaríska flugfélagsins Delta flogið allt að daglega hingað frá JFK flugvelli í New York en í ár hófst Íslandsflug félagsins frá heimsborginni strax í febrúar. Síðar í þessum mánuði bætir félagið svo við daglegum ferðum hingað frá Minneapolis. Forsvarsmenn Delta láta ekki þar við sitja því nú hafa þeir sett í sölu beint flug milli Íslands og New York allan næsta vetur. Flugleiðin verður þar með starfrækt allt árið um kring og verða farnar fjórar ferðir í viku næstkomandi vetur en yfir hásumarið eru brottfarirnar tvöfalt fleiri. Frá þessu greinir vefurinn Túristi.is
Eina félagið með svefnsæti
Með þessum viðbótum munu umsvif þessa risastóra flugfélags margfaldast hér á landi en Delta er jafnframt eina erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli sem ekki er evrópskt. Farþegarýminu í þotum bandaríska flugfélags er skipt í þrennt og í fremsta hluta þess er að finna svefnsæti (flat-bed) en þess háttar aðstaða er ekki eru í boði hjá neinu öðru flugfélagi sem flýgur til og frá Íslandi. Svoleiðis munaður kostar vissulega sitt eða að lágmarki rúmlega tvö hundruð þúsund krónur á meðan sæti á ódýrasta farrými til New York er á um 69 þúsund krónur samkvæmt athugun Túrista.is.
Hvað gerir WOW í New York?
Í dag flýgur Icelandair til New York flugvallanna JFK og Newark en WOW air hefur ennþá ekki bætt þessari stærstu borg Bandaríkjanna við leiðakerfi sitt. Á því kann að verða enn lengri bið þar sem afgreiðslutímar á flugvöllunum borgarinnar liggja ekki á lausu og hafa stjórnendur íslenska lággjaldaflugfélagsins meðal annars horft til lítils flugvallar í New York fylki.
Með tilkomu heilsárs áætlunarflugs Delta hingað til lands frá JFK flugvelli í New York má segja að möguleikar WOW til að koma sér fyrir í borginni verði minni þar sem samkeppnin verður ennþá harðari.
Fókusinn hjá forsvarsmönnum WOW er hins vegar líka á tengiflug milli N-Ameríku og Evrópu á meðan ferðinni hjá farþegum Delta í Bandaríkjunum er eingöngu heitið til Íslands en ekki til meginlands Evrópu. Þar af leiðandi er vetrarflug Delta hingað til lands góð tíðindi fyrir íslenska ferðaþjónustu en Bandaríkjannamenn ásamt Bretum eru langstærstu hópar ferðamanna hér á landi. Reyndar er hlutdeild þessara tveggja þjóða svo stór að talsmanni Samtaka ferðaþjónustunnar hefur þótt ástæða til að staldra við þennan mikla fjölda.