Delta festir sig í sessi hér á landi
Þriðja sumarið í röð ætlar bandaríska flugfélagið Delta að fljúga milli New York og Keflavíkur. Félagið fjölgar jafnframt ferðum sínum hingað.
Það þóttu mikil tíðindi þegar Delta Airlines, eitt stærsta flugfélag í heimi, hóf flug til Íslands í júní árið 2010. Félagið hefur haldið uppteknum hætti síðan þá og boðið upp á fimm ferðir á viku til New York á sumrin. Á næsta ári verða ferðirnar sex á viku yfir aðalferðamannatímann en fjórar til fimm vikulega í byrjun júní og í lok ágúst. Vefurinn Túristi.is greinir frá.
Flytja þúsundir Bandaríkjamanna til Íslands
„Reykjavík er að verða mjög vinsæll áfangastaður meðal bandarískra ferðamanna og það liggur beinast við að bjóða þessa þjónustu á þeim tíma sem viðskiptavinir okkar kjósa helst að heimsækja landið – þ.e.a.s. yfir sumarmánuðina,” segir Perry Cantarutti, aðstoðarforstjóri hjá Delta í fréttatilkynningu. „Áætlunarflug Delta eykur valmöguleika farþega sem ferðast á milli Íslands og Bandaríkjanna, auk þess sem það mun flytja þúsundir bandarískra ferðamanna til Íslands næsta sumar, sem kemur til með að hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu landsmanna,” bætir Cantarutti við.
Netsamband um borð
Hingað til hafa farþegar Delta aðeins geta tengst þráðlausu neti um borð þegar vélarnar eru á flugi yfir Bandaríkjunum. Frá og með næsta ári ætlar félagið að bæta þessa þjónustu og gera þeim kleift sem fljúga með félaginu milli Íslands og Bandaríkjanna að tengjast internetinu allan tímann sem flugferðin stendur yfir. Í dag er það aðeins Norwegian sem býður upp á þannig þjónustu í flugi til og frá Íslandi. Uppsetningu á þráðlausu neti hjá Icelandair á að ljúka næsta haust.
20 ferðir á dag til New York
Icelandair flýgur til New York allt árið um kring og býður upp á tvær ferðir á dag á sumrin. Íslenskir túristar geta því valið úr tuttugu ferðum á viku til heimsborgarinnar næsta sumar. Delta hefur flug hingað 3. júní og síðasta ferðin verður farin 2. september.