Codland reisir heilsuvöruverksmiðju
Framþróun í íslenskum sjávarútvegi er mikil þessi misserin og þar leggja grindvísk sjávarútvegsfyrirtæki sitt af mörkum. Íslenski sjávarklasinn hófst sem verkefni innan Háskóla Íslands árið 2010 en er nú orðið að full starfandi fyrirtæki sem stuðlar að tækifærum og styrkir tengslanet milli fyrirtækja í haftengdri starfsemi á Íslandi og um allan heim. Samstarfsaðilar klasans eru stjórnendur í fyrirtækjum sem eru í fremstu röð á sínu sviði í haftengdri starfsemi og öðrum greinum.
Eitt af verkefnum klasans er stofnun Codland sem er fullvinnslufyrirtæki með það að leiðarljósi að efla ímynd og hámarka fullnýtingu á fisktengdum afurðum. Erla Pétursdóttir verkefnisstjóri hjá Vísi hf. í Grindavík á sæti í stjórn Codlands.
„Codland er fullvinnslufyrirtæki með það að leiðarljósi að efla ímynd og hámarka fullnýtingu á þorski í Norður- Atlantshafi. Á Reykjanesi er verið að reisa heilsuvöruverksmiðju sem nýtir slóg. Verksmiðjan er við hliðina á þurrverksmiðunni Haustaki sem sérhæfir sig í þurrkun á fiskhausum og beingörðum. Haustak er jafnframt aðilinn á bak við Codland. Í verksmiðjunni verður unnið mjöl og lýsi en einnig vinnur Codland að þróun frekari fullvinnslu,“ sagði Erla í samtali við heimasíðu Grindavíkurbæjar.
„Íslenski sjávarklasinn hefur leitt þessa þróunarvinnu en það eru gríðarleg tækifæri í fullvinnslu um allt Norður-Atlantshaf. Stefna Codland er einnig að reisa auðlindahús í Grindavík þar sem væri góð aðstaða fyrir fyrirtæki og sérfræðinga í fullvinnslu. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga fyrir þessu verkefni og samstarfsvilja hjá fyrirtækjum á svæðinu um að nýta betur hráefnið og skapa verðmæti og störf,“ sagði Erla ennfremur en viðtalið má sjá í heild sinni á grindavík.is.