Codland og MS hefja samstarf um þróun á tilbúnum drykkjum
Codland og Mjólkursamsalan hafa ákveðið að hefja samstarf um þróun á tilbúnum drykkjum þar sem hráefni frá báðum aðilum myndu njóta sín. Er þetta einstakt tækifæri til að búa til náttúrulega og hágæða vöru sem tengir saman landbúnað og sjávarútveg, segir í frétt í tímaritinu Sjávarafli.
Codland var stofnað árið 2012 og er í eigu fiskvinnslufyrirtækjanna Vísis hf. og Þorbjarnar hf. í Grindavík. Codland hefur unnið að þróun hágæða Kollagens vöru úr íslensku þorskroði í samstarfi við Matís og með styrk Tækniþróunarsjóðs. Kollagen er eitt mikilvægasta prótein líkams sem heldur húðinni stsinnri og styrkir liðamót. Vinnsla á roðinu færir Codland nær markmiðum sínum um að auka verðmæti þorsksins með betri nýtingu hliðarafurða.
Markmið Codland er að stuðla að framþróun í sjávarútvegi með áherslu á fullnýtingu, þróun og samstarf. Codland hefur að leiðarljósi að hámarka nýtingu sjávarafurða og hvetja til umræðu og samstarfs sem skapar grundvöll til frekari þróunar og auknu verðmæti afurða.
„Við í Codland erum mjög spennt að hefja samstarfið enda hefur MS gífurlega reynslu í þróun og framleiðslu á hollum matvælum sem hafa jákvæð áhrif á heilsu neytenda,“ segir Davíð Tómas í viðtalinu við Sjávarafl.