Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Cafe Petit er nýtt kaffihús í Keflavík
Fimmtudagur 27. júní 2013 kl. 09:46

Cafe Petit er nýtt kaffihús í Keflavík

Ákvað að kýla á þetta, segir Ágúst H. Dearborn hnefaleikakappi, sem opnaði Cafe Petit við Framnesveg

Eins og íbúar Reykjanesbæjar eflaust þekkja eru kaffihús ekki á hverju strái í bæjarfélaginu. Njarðvíkingurinn Ágúst H. Dearborn var orðinn leiður á því ástandi og ákvað að taka málin í sínar eigin hendur ásamt kærustu sinni Katrínu Arndísi.

Hann hefur nú opnað kaffihúsið Cafe Petite miðsvæðis í bænum en kaffihúsið er staðsett á Framnesvegi 23. Ágúst segir viðtökurnar hafa verið mjög fínar „Ég get ekki sagt annað en að fólk sé að taka mjög vel í þetta þar sem við höfum ekki auglýst mjög mikið hingað til. Við teljum okkur vera með ódýrasta verðið á Suðurnesjunum.“ Á Cafe Petite er kranabjórinn á 650 kr. sem verður að teljast nokkuð ódýrt miðað við það sem gengur og gerist, en einnig eru í boði fleiri bjórar sem eru örlítið dýrari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fólk lætur dæluna ganga
„Við erum með skemmtilega nýjung sem snýr að sjálfsafgreiðslu þar sem það eru bjórkranar á tveimur borðum þar sem fólk getur látið dæluna ganga, bókstaflega. Á borðinu er teljari sem telur hversu marga drykki fólk fær sér.“

Ágúst segist lengi hafa átt sér þann draum að opna kaffihús á svæðinu þar sem honum fannst vanta staði þar sem hægt væri að hitta vini og kunningja á kvöldin í kaffibolla eða drykk. „Staðurinn á ekki að vera hefðbundinn djammstaður þar sem fólk mætir seint um nótt og dansar heldur er hugmyndin sú að fólk geti komið og fengið sér drykki, spjallað saman, spilað billjard og haft það notalegt.“


Vill stuðla að kaffihúsamenningu í bænum
Það er ákveðin áskorun að hella sér út í fyrirtækjarekstur en Ágúst segir það vera spennandi verkefni. „Ég ákvað fyrir stuttu að hætta að hugsa alltaf að einhver annar eigi að opna svona stað og ákvað að kýla á það sjálfur. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að maður verður ekki ríkur af því að reka kaffihús en mig langar að stuðla að því að svona menning geti blómstrað í bænum. Þegar fólk vill taka sér frí frá djammmenningunni, þá er tilvalið að kíkja til okkar.“

Ágúst sem er hnefaleikaþjálfari aðhyllist heilsusamlegu líferni en honum finnst mikilvægt að samkomustaður sem þessi sé í boði í Reykjanesbæ.

Húsnæðið sem hýsir Cafe Petite er notalegt og rúmgott. Þar má sjá gömul húsgögn, þægilega sófa og nokkur billjardborð. Boðið er upp á hina hefðbundnu kaffidrykki m.a. hinn vinsæla kalda kaffidrykk „frappuccino“ sem og girnilegar kökur og tertur.

Einnig eru hollir valkostir í boði þar sem hægt er að fá ávaxtaboost og nokkrar ávaxtategundir. Mikilvægast finnst Ágústi að halda verðinu lágu en hins vegar er alltaf tekið vel í hugmyndir frá viðskiptavinum um hvað mætti bjóða upp á eða gera öðruvísi.