Byggja verksmiðju sem framleiða á metanól úr koltvísýringsútblæstri
Mannvit hf. og íslensk-ameríska fyrirtækið Carbon Recycling International ehf. hafa undirritað samstarfssamning um að hanna og byggja verksmiðju sem breytir koltvísýringsútblæstri frá jarðvarmavirkjunum í metanól, fljótandi eldsneyti fyrir bíla og önnur farartæki. Þetta verður fyrsta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum.
Árleg afkastageta verksmiðjunnar, sem verður reist á Reykjanesi, verður 4,5 milljón lítrar af metanóli sem blandað verður bensíni í hlutföllunum 5 á móti 95. Sú blanda hækkar oktangildi eldsneytisins og stuðlar að hreinni brennslu og betri nýtingu þess. Ennfremur eykur blandan afl bensínbíla, jafnt nýrra sem eldri, án þess að nokkurra vélarbreytinga verði þörf. Áætlað er að bensínblandan standi ökumönnum á höfuðborgarsvæðinu til boða frá og með maí 2009.
KC Tran, forstjóri Carbon Recycling International, segir samninginn við Mannvit tryggja að þessu metnaðarfulla verkefni verði lokið á tilsettum tíma. Mikil eftirvænting sé eftir fyrstu metanólverksmiðju heims sem fangar koltvísýring og breytir honum í fljótandi eldsneyti.
Samkvæmt samningnum annast Mannvit verkefnastjórnun við hönnun og byggingu verksmiðjunnar sem og verkefnum sem tengjast efnafræði, vélaverkfræði, skipulags- og byggingaverkfræði og ýmsum umhverfisþáttum. Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits, segir fyrirtækið búa yfir nægri þekkingu og reynslu til að taka að sér þetta verkefni. „Markmiðið er að koma á fót framleiðslu á fljótandi eldsneyti sem byggist á því að koltvísýringsútblástur frá jarðvarmavirkjunum er endurnýttur á skilvirkan og hagkvæman hátt.“
Carbon Recycling International þróar og hannar tækni til að breyta koltvísýringsútblæstri í fljótandi eldsneyti sem verður notað á óbreyttum bensín- eða díselvélum. Framleiðsla á slíku eldsneyti gæti í framtíðinni gert Ísland óháð olíu og minnkað útblástur koltvísýrings auk þess sem framleiðsla jarðvarmavirkjana verður nýtt á arðbærari hátt en áður.
Carbon Recycling International er í eigu íslenskra og bandarískra fjárfesta. Fyrirtækið rekur starfsemi í Bandaríkjunum en höfuðstöðvar þess eru að Höfðabakka 9 í Reykjavík.