Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Búsáhaldabylting á hverjum degi
Fimmtudagur 29. apríl 2010 kl. 15:57

Búsáhaldabylting á hverjum degi

-Skólamatur 10 ára


Í gær voru liðin 10 ár liðin frá því að fyrsta skólamáltíðin var framreidd hjá Skólamat, sem þá hét Matarlyst-Atlanta. Starfsemi fyrirtækisins hefur vaxið jafnt og þétt á þessum tíma og matreiðir það nú rúmlega 4.000 máltíðir á dag í 15 skólum í 6 sveitarfélögum. Það samsvarar um 700.000 máltíðum á ári. Hjá fyrirtækinu starfa um 40 manns.

Það er þó mun meira en 10 ára reynsla að baki fyrirtækinu. Eigandi þess, Axel Jónsson veitingamaður, hefur 40 ára reynslu af því að metta svanga maga á öllum aldri og á henni er fyrirtækið byggt.
,,Ég hef lengi staðið í veitinga- og atvinnurekstri en það er jafnframt ljóst að svona fyrirtæki byggist ekki á einum manni. Það liggur mikil þróunarvinna að baki því að búa til góðar leik- og grunnskólamáltíðir og ég hef verið að vinna að því með mínu góða starfsfólki síðustu 10 ár,“ segir Axel.

Menntun og þekking starfsmanna er fjölbreytt en um 70% þeirra eru konur og er meðalaldur þeirra 47 ár. Axel segir að Skólamatur sé alls ekkert útrásarfyrirtæki heldur þvert á móti. ,,Samfélagið hjá Skólamat byggist upp á gömlum íslenskum gildum og snýst um að búa til heimilislegan mat fyrir nemendur, en ekki að horfa út á við. Slagorð okkar er ,,hollt, gott og heimilislegt” og ég vil lýsa fyrirtækinu sem innrásarfyrirtæki. Hér er það ekki skyndigróði og skammsýni sem ráða heldur konur með sleifar, potta og pönnur. Hér er því nokkurs konar búsáhaldabylting á hverjum degi og þótt ég eigi fyrirtækið og reyni að miðla af minni reynslu þá ræður kvenþjóðin öllu enda eru þær í meirihluta,” segir hann og bætir við kíminn: ,,Það hefði aldrei orðið neitt hrun á Íslandi hefði stjórnunarmódel Skólamatar ráðið í fjármálalífinu“.
----

VFmynd/elg - Samhent feðgin: Axel Jónsson ásamt börnum sínum Jóni og Fanný stjórna rekstri fyrirstækisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024