Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 17. ágúst 2001 kl. 09:20

Búðarrekstur hefur alltaf blundað í mér

Rúnar Lúðvíksson er umboðsmaður Varðar vátrygginga í Keflavík. Hann rekur einnig Matvöruverslunina Hólmgarð. Eftir 20 ára starf í lögreglunni fannst Rúnari kominn tími til breytinga. Hann byrjaði hjá Tryggingu árið 1991 og keypti matvöruverslunina þrem árum seinna. „Búðarreksturinn blundaði alltaf í mér. Ég byrjaði að vinna hjá Sölva heitnum Ólafssyni og var síðan hjá Kaupfélagi Suðurnesja“, segir Rúnar sem starfaði einnig sem rútubílsstjóri hjá SBK í 8 ár. „Tryggingarnar og rekstur matvöruverslunar fer vel saman“, segir Rúnar en viðurkennir að vinnudagurinn sé oft mjög langur. „Ég er mættur upp í búð kl. 8 og kem heim kl. 18 en þarf síðan að fara og ganga frá í búðinni milli kl. 21-22.“

Ákveðið að láta reyna á Vörð
Vörður var stofnað á Akureyri árið 1926 undir nafninu Vélabátatryggingar Eyjafjarðar en hópur vélbátaeigenda hafði tekið sig saman og stofnað tryggingafélag sem sérhæfði sig í tryggingum vélbáta. Árið 1994 keypti félagið Skipatryggingar Austfjarða og var þá ákveðið að breyta nafni félagsins í Vörður vátryggingafélag. Umboðsskrifstofa Varðar í Keflavík opnaði í september árið 1999 en fram að þeim tíma hafði rúnar starfað sem umboðsmaður Tryggingar en það félag var sameinað Tryggingamiðstöðinni í ágúst 1999. „Það var ákveðið að láta reyna á það hvernig Vörður gengi hérna“, segir Rúnar og bætir við að vel hafi gengið. „Við erum með talsvert fleiri viðskiptavini en Trygging var með við sameininguna.“ Tveir starfsmenn starfa hjá Verði og því nóg að gera hjá Rúnari.

óvænt í verslunarrekstri
„Það var mjög óvænt að ég fór út í verslunarrekstur“, segir Rúnar þegar hann er spurður um aðdraganda þess að hann festi kaup á Matavöruversluninni Hólmgarði. „Ég fór út í Hólmgarð erinda fyrir konuna og fór að spjalla við þáverandi eiganda verslunarinnar. Hann stakk upp á því að ég keypti verslunina af honum en mér fannst það fráleit hugmynd.“ En hugsunin vék ekki frá Rúnari og eftir langa umhugsun ákvað hann að slá til. Í dag vinna 11 manns í versluninni auk þess sem þau hjónin eyða miklum tíma þar. „Það er mjög erfitt að fá frí þegar maður er í þessum rekstri“, segir Rúnar sem fer í burtu til þess að hvílast en helgarnar eru undirlagðar vinnu eins og aðrir dagar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024