Brjálað að gera í nýrri búð í Keflavík
„Við höfum fengið fljúgandi start og það á tímum Covid-19. Það er búið að vera brjálað að gera,“ segir Gunnhildur Brynjólfsdóttir, verslunarstjóri í SPORT24 en það er ný íþróttavöruverslun sem opnaði nýlega í sama húsnæði og K-sport var í.
Gunnhildur sagði að það væri breitt úrval af íþróttavörum á alla aldurshópa. „Ég var spurð hvort við ætluðum ekki að hafa skertan opnunartíma en það er bara búið að vera svo mikið að gera að við höfum haft opið til kl.18 virka daga og til 16 á laugardögum. Þetta er bara mjög skemmtilegt. Það er gaman að fá svona móttökur,“ sagði Gunnhildur.
Hún sagði að íþróttafatnaður væri mjög vinsæll núna þegar margir væru heima við og ekki á vinnustöðunum í sama mæli og fyrir Covid-19. „Þá býr þessi verslun við það að eigendurnir eru með fleiri verslanir og stóran lager. Ef ég sé að sumt er ekki að virka þá skipti ég því út og fæ annað í staðinn. Sama er ef það er ekki til stærð eða gerð sem viðskiptavinurinn er að biðja um. Þá erum við fljót að útvega vöruna frá Reykjavík. Við erum mjög bjartsýn á framtíðina og ætlum að sinna Suðurnesjamönnum vel,“ sagði þessi hressa Keflavíkurmær.