Breytt verslun og stórbætt þjónusta
Miklar breytingar hafa verið gerðar í verslun Húsasmiðjunnar og Blómavals á Fitjum í Njarðvík. Verslunin hefur tekið stakkaskiptum með því að rekkar hafa verið lækkaðir, lagnadeild færð inn í timbursölu, skrúfu,- og verkfæradeild endurhönnuð og Blómaval stækkað. Þá hefur verið tekinn upp breyttur opnunartími og opnar verslunin nú kl. 08 virka daga.
Einar Lárus verslunarstjóri segir að mestu breytingarnar séu hvað varðar hillur og rekka sem hafa verið lækkaðir niður í 1,55m og er yfirsýnin yfir verslunina nú þannig að það sést endanna á milli.
„Þetta stórbætir þjónustuna þar sem ætíð sést til starfsmannanna og þeir sjá viðskiptavininn um leið og hann kemur inn,“ segir Einar í samtali við Víkurfréttir.
Versluninni skipt í tvö svæði
Samhliða þessu var gerð sú breyting að allar svokallaðar hvítar vörur (þvottavélar, þurrkarar, ísskápar) voru færðar nær Blómavali ásamt smáraftækjum, hreinsivörum og öðrum heimilisvörum þannig að nú má segja að verslunin skiptist eiginlega í tvennt þar sem annars vegar eru verkfæri, málning, hreinlætistæki, skrúfur og festingar, allt sem tengist meira fagmanninum og viðhaldi og hins vegar Blómaval, fatnaður, búsáhöld, heimilistæki og árstíðarvörur.
Einar segir að bætt hafi verið í vöruúrvalið, bæði í Húsasmiðjunni og Blómavali og er nú meira af gjafavörum. Þessa dagana eru að koma vor- og sumarvörur og kennir þar ýmissa grasa, eins og útiblómin, útsæðið og laukarnir, enda rétti tíminn fyrir það núna.
Mikil áhersla er lögð á að eiga til réttu vörurnar í réttu magni þannig að bæði iðnaðarmenn og hinn almenni neytandi fái þær vörur sem hann vantar.
Breyttur opnunartími - 08:00 til 18:00
Búið er að breyta opnunartímanum aftur þannig að alla virka daga er opið frá 08:00 - 18:00 og laugardaga frá 10:00 - 16:00. Áður opnaði verslunin kl. 10:00 en timbursalan kl. 08:00.
„Núna fyrir helgina munum við vera með sérstaka aðgerð sem er einungis hér á Suðurnesjum þar sem við verðum með afslátt af nær öllum vörum fyrir utan timbur og mun það gilda fimmtudag, föstudag og laugardag og eins og segir, aðeins fyrir Suðurnesjamenn,“ segir Einar Lárus verslunarstjóri í samtali við Víkurfréttir.