Breytingar hjá Samkaupum hf.
Breytingar hafa verið gerðar hjá Samkaupum með stofnun sérstakrar Markaðs- og þjónustudeildar. Deildinni veita forstöðu þeir Sturla Eðvarðsson og Ómar Valdimarsson. Sturla var áður verslunarstjóri í Samkaup Njarðvík en Ómar verslunarstjóri í Samkaup Ísafirði. Markaðs- og þjónustudeild fer með markaðsmál og auglýsingamál fyrir Samkaupsverslanir og Sparkaupverslanir auk þess að stýra vöruvali, samningum við birgja, útgáfu bæklinga og þjónustu við verslanir. Deildin er með aðstöðu í Samkaup Njarðvík. Báðir eru þeir félagar rekstrarfræðingar úr Samvinnuskólanum á Bifröst.Þeir Kristján Friðjónsson og Hörður Sigfússon hafa tekið við stjórnartaumum í Samkaup Njarðvík. Kristján er verslunarstjóri í matvöru en Hörður í sérvöru. Báðir eru þeir með margra ára reynslu og góða þekkingu á verslunarrekstri . Kristján er fæddur á Akranesi en hefur starfað við verslunarstörf síðan á unglingsárum og var síðast verslunarstjóri hjá KASK á Höfn í Hornafirði. Hörður hefur verið deildarstjóri hjá Húsasmiðjunni til margra ára en er fæddur og uppalinn í Keflavík.