Breytingar á eigendahópi HS Orku
Innergex Renewable Energy Inc. tilkynnti í morgun að félagið hafi gengið frá samningi um sölu á öllum hlutum í félagi sínu, Magma Energy Sweden A.B., sem er eigandi 53,9% hlutar í HS Orku hf. Kaupverðið er sagt 304,8 milljónir bandaríkjadollara eða um 37 milljarða króna.
Kaupandinn er stór innviðafjárfestingarsjóður Macquarie Infrastructure and Real Assets (MIRA). Kaupin eru háð tilskyldum skilyrðum og meðferð forkaupsréttar á hlutum í Magma Energy Sweden A.B.
„Í nýliðnu söluferli endurspeglaðist mikill áhugi fjárfesta á HS Orku, sem við teljum jákvæðan vitnisburð um þróun félagsins og það góða starf sem hæft starfsfólk okkar vinnur,“ segir Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku hf. í tilkynningu frá félaginu.