Brautargengisnámskeið í Reykjanesbæ
Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands áformar að halda námskeiðið Brautargengi í Reykjanesbæ í samstarfi við Frumkvöðlasetrið á Ásbrú og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Brautargengi er sérsniðið námskeið fyrir konur sem hafa viðskiptahugmynd sem þær vilja hrinda í framkvæmd með nýju eða starfandi fyrirtæki.
Kennt verður í Reykjanesbæ, n.t.t. í Eldey, einu sinni í viku í 15 vikna lotu, 4,5 klst. í senn. Á Brautargengi læra þátttakendur um stefnumótun, vöru- og þjónustuþróun, markaðsmál, fjármál, stjórnun auk annarra hagnýtra atriða við stofnun og rekstur fyrirtækja. Þá er sérstaklega farið í kynningu á persónueinkennum frumkvöðla og stjórnenda og hvað þeir þurfa að hafa til að bera til að ná árangri. Brautargengi hefst 2. febrúar nk. en lýkur um miðjan maí. Námskeiðið stendur samtals í 75 klst.
Reynsla annarra
Brautargengisnámskeiðin hafa verið kennd síðan 1998 og hafa yfir átta hundruð konur tekið þátt í þeim. Margar þeirra hafa stofnað fyrirtæki í kjölfarið og telja námskeiðið hafa ráðið úrslitum um stofnun þeirra. Flestar telja sig mun hæfari stjórnendur eftir að hafa lokið Brautargengisnámi. Einhverjar hafa lagt hugmynd sína til hliðar eftir að hafa skoðað hana nánar á námskeiðinu þar sem þeirra útreikningar bentu til að hugmyndin væri ekki arðsöm.
Námskeiðsgjald er 40.000 kr. Innifalið í því er kennsla, námsgögn, verkefnamappa, kaffi og meðlæti og handleiðsla. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér möguleika á styrk frá viðkomandi stéttarfélagi.
Umsóknarfrestur er til 27. janúar. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð má finna á www.nmi.is/impra . Jafnframt veitir Selma Dögg Sigurjónsdóttir verkefnastjóri Impru á Akureyri nánari upplýsingar í síma 522 9434 eða á netfanginu [email protected].