Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Börnin fylgja fordæmi foreldranna og kaupa þvottavélar hjá Sigga rafvirkja
Föstudagur 17. október 2003 kl. 12:41

Börnin fylgja fordæmi foreldranna og kaupa þvottavélar hjá Sigga rafvirkja

Sigurður Ingvarsson hefur verið rafverktaki í Garðinum í 35 ár. Þá hefur hann verið í verslunarrekstri í 20 ár ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Guðmundsdóttur. Sigurður og Kristín tóku á móti blaðamanni á heimili þeirra við Sunnubrautina í Garði. Blaðamanni er skylt að upplýsa hér tengsl sín við Garðinn og að hafa búið í nágrenni við Sigga rafvirkja, eins og hann er ávallt kallaður í Garðinum, í 19 ár. Það var mikil uppgangstíð í Garðinum árið eftir gosið í Eyjum 1973. Sunnubrautin og aðrar götur tóku einnig kipp upp úr 1978. Það ár hætti blaðamaður að vera Út-Garðspúki og flutti á Sunnubrautina. Fljótlega vandi blaðamaður, sem þá var 8 ára patti, komur sínar í bílskúrinn til Sigga rafvirkja, þar sem fengust rafmagnsrör fyrir lítinn pening og úr þeim voru útbúnir húlla-hringir, fyllt með maísbaunum, til að mynda skemmtileg hljóð. Fljótlega þóttu húlla-hringirnir ekki nógu flottir og því var farið skipulega í nýbyggingar á svæðinu í leit að rafmagnsrörum sem voru nógu góð til að búa til úr þeim boga. Áramótin voru sérstakur tími í þessu, enda flott að nota flugeldaprik sem örvar.

Á þessum tíma uppbyggingar í Garðinum kom það í hlut rafvirkjans í byggðarlaginu að sjá um allar raflagnir. Í þá daga þekktust ekki þau útboð sem tíðkast í stórum verkum og smáum í dag. Þegar Sigurður horfir til baka þau  ár sem liðin eru síðan hann lauk námi, segir hann að stefnan hafi strax verið sett á að opna eigið verkstæði. Hann sagðist alltaf hafa verið ákveðinn í því, enda hafi það verið eðlilegt framhald af því að hafa lokið námi í greininni. Sigurður og hans menn hafa ávallt verið áberandi rafvirkjar í Garðinum. Mikill uppgangstími hófst í Garðinum 1974 og síðan þá hafa komið nokkur tímabil þar sem mikið hefur verið byggt og oftar en ekki hefur það verið verk Sigurðar og hans manna að leggja raflögn og smíða rafmagnstöflur. Sigurður segir miklar breytingar hafa orðið á þessum 35 árum. Tækni og efni til vinnunnar hafi breyst. Þá séu útboð verka í dag, sem þekktust ekki áður. Í gegnum útboð hafi fyrirtæki Sigurðar séð um raflagnir í mörgum stórum verkum og á kunnum stöðum. Þannig sá Sigurður Ingvarsson um raflagnir í nýja Bláa lóninu, einnig í Eldborg í Svartsengi, íbúðum aldraðra við Kirkjuveg 5 í Keflavík og  einnig að Aðalgötu 5. Nýja háhýsið á Vatnsnesvegi í Keflavík fær alla sína raforku í gegnum raflagnir frá mönnum Sigurðar. Sömu sögu má segja af síðustu viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Sigurður sér einnig um raflögn í þeirri viðbyggingu sem nú er unnið við. Þá eru Gerðaskóli og íþróttamiðstöðin í Garði ótalin, auk fjölda annarra verka af ýmsum stærðum. Stærsta verkið sem Sigurður Ingvarsson hefur unnið er hins vegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar, bæði eldri og nýrri byggingin. Í þeirri eldri  var Sigurður í félagi við þrjá aðra verktaka sem sáu  um raflögn, þar sem allar stærðir voru mældar í þúsundum metra.En í þeirri seinn var hann í félagi við fimm aðra verktaka Síðasta stóra verkið sem Sigurður skilaði er hins vegar stórverslun BYKO í Breiddinni þar sem Sigurður sá um alla raflögn.
Á þessum 35 árum sem liðin eru frá því Sigurður stofnaði raflagnavinnustofu sína hefur orðið mikil þróun. Það sem áður þurfti að skrúfa er í dag smellt. Úrval af raflagnaefnum er mun meira og fæst afgreitt með stuttum fyrirvara. Verkin og verkefnin eru einnig orðin stærri og viðameiri. Þannig er lögnum alltaf að fjölga. Símalagnir um allt og sömu sögu er að segja af tölvu og sjónvarpslögnum.
Fyrirtækið hefur vaxið hratt þessi 35 ár og því var ráðist í það árið 1980 að byggja verkstæðishús við Heiðartún 2. Það kom í hlut Sigurðar heitins, sonar þeirra hjóna, að taka skóflustunguna. Verslun með ljósaperur og annað smálegt opnaði 1983 og fyrir 10 árum síðan var byggt við og verslunin stækkuð. Fjölbreytnin í versluninni hefur einnig verið að aukast í gegnum árin. Auk þess að versla með rafmagnsvörur eins og perur, klær og fjöltengi, hafa Sigurður og Kristín verslað með  raftæki til margra ára. Í dag eru einnig fáanleg í versluninni gjafavara, íþróttavörur frá Adidas og skólavörur. Sigurður segir íbúana hafa tekið því vel að hafa fjölbreytni í vöruúrvalinu. Sigurður hefur verið umboðsmaður Siemens í Garði til fjölda ára. Þannig hafa fjölmargir keypt þvottavélar og önnur raftæki  og hann segir sömu fjölskyldurnar hafa haldið tryggð við sig í gegnum árin. „Fyrst komu foreldrarnir og síðan börnin. Ég á marga svoleiðis viðskiptavini, sem ég met mikils”, segir Sigurður
Talandi um vöxtinn í fyrirtækinu þá segir Sigurður að í dag séu 8-10 rafvirkjar að jafnaði starfandi hjá honum. „Þetta átti ekki að verða svona, en við sumt fæst ekki ráðið”. Fyrirtækið er einnig að verða meira fjölskyldufyrirtæki en það var áður. Jóna, dóttir þeirra Sigurðar og Kristínar, starfar í versluninni og annar tengdasonurinn er rafvirki hjá honum. Um næstu áramót verður fyrirtækið gert að sameignarfélagi, þ.e. endingunni sf. verður bætt aftan við.
Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar lét Sigurður af afskiptum af sveitarstjórnarmálum í Gerðahreppi, eftir 28 ár í pólitíkinni. „Þetta voru ákveðin umskipti og ég var ákveðinn í að hætta”, segir Sigurður. „Ég hef heldur ekki mætt á einn einasta meirihluta  fund síðan. Þetta var góður tími til að hætta og ég er ánægður með að við héldum meirihlutanum  og ég er mjög sáttur. Sigurður á sæti í byggingarnefnd íbúða aldraðra. Hann mun bráðlega skila af sér því starfi og þar með er afskiptum hans af sveitarstjórnarmálum lokið. „Ég vildi fylgja þessu máli eftir og það var mér kappsmál að þessar íbúðir yrðu byggðar”.
Aðspurður segir Sigurður að koma hitaveitunnar í byggðarlagið sem og bygging íþróttahússins og íþróttasvæðisins sé það sem standi uppúr á 28 ára ferli í sveitarstjórnarpólitíkinni. Þessar framkvæmdir sem og stækkun skólans breytti allri aðstöðu hér í Garðinum og gerði sveitafélagið byggilegra og stuðlaði að þeirri  fólksfjölgun sem orðið hefur. „Mér finnst ánægjulegt að hafa átt þátt í þessari uppbyggingu”. Þess má geta að íbúum í Garði hefur fjölgað um hart nær 200 á síðasta áratug og á þessu ári er mikil uppbygging í íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og með því mesta sem gerist sveitarfélögum á landinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024