Blue Lagoon húðvörurnar tilnefndar til verðlauna
Blue Lagoon húðvörurnar eru tilnefndar til dönsku snyrtivöruverðlaunanna „Danish Beauty and Cosmetic Award“. Verðlaunahátíðin verður haldin á Hilton Hótelinu við Kastrup flugvöll fimmtudaginn 3. apríl.
Vörurnar eru tilnefndar í eftirfarandi flokkum: Vörumerkið Blue Lagoon er tilnefnt sem vörumerki ársins; rakakremið Blue Lagoon Mineral Moisturizing Cream er tilnefnt sem vara ársins í flokknum vörur fyrir líkama og Blue Lagoon Silica Mud Mask, kísill, er tilnefnd sem vara ársins í flokknum vörur selda og notaðar á snyrtistofum og spa stöðum.
Þetta er annað árið sem verðlaunahátíðin er haldin og hefur hún þegar skipað sér fastan sess og vakið athygli. Tólf manna dómnefnd er skipuð þekktum einstaklingum og má þar nefna Pernille Aalund, fyrrum sjónvarpsþáttastjórnanda og ritstjóra, hún starfar nú sem framkvæmdastjóri Allers Press. Nikki Welsh, stílista, en hún er meðal annars þekkt fyrir að hafa starfað með þekktum einstaklingum. Eva Kruse á einnig sæti í dómnefndinni en hún er skipuleggjandi dönsku tískuvikunnar og framkvæmdastjóri “Danish Fashion Institute.” Nánari upplýsingar um Danish Beauty Award má finna á www.dcba.dk
Blue Lagoon húðvörurnar hafa verið seldar í Danmörk í tæp tvö ár og eru þær m.a. fáanlegar í versluninni Magasin Du Nord og hefur hefur vörumerkið hlotið góðar undirtektir á þeim markaði. Blue Lagoon húðvörurnar eru byggðar á náttúrulegum Blue Lagoon hráefnum, kísill, steinefnum og þörungum. Virku efnin eru þekkt fyrir lækningamátt auk þess sem rannsóknir sýna að kísillinn styrkir ysta varnarlag húðarinnar og þörungarnir vinna gegn öldrun húðarinnar. Vörulínan samanstendur af andlits- og líkamsvörum fyrir allar húðgerðir sem hreinsa, veita orku og næra húðina.