Blámar: Dreifa sjávarafurðum á innanlandsmarkað
„Bræður mínir hafa lengið starfað við sjávarútveginn og eiga þeir Gunnar og Sturla útflutningsfyrirtækið Icemar. Ég sá leik á borði þar sem ég var nýbúin að klára Keili og var á leiðinni í nám hjá HA í sjávarútvegsfræði og fannst gullið tækifæri að starfa við það sem ég var að fara að læra um. Ég spurði þá hvort það væri ekki sniðugt að stofna fyrirtæki sem sérhæfði sig í sölu á sjávarafurðum á innanlandsmarkaði og var því tekið mjög vel strax í upphafi,“ segir Kristín Örlygsdóttir, aðaleigandi Blámars, sem sérhæfir sig í sölu og dreifingu á frystum og ferskum sjávarafurðum á innanlandsmarkaði til verslana, veitingahúsa og stóreldhúsa.
„Við stofnuðum fyrirtækið fyrir ári síðan og er ég aðaleigandi Blámars. Icemar og AG Seafood eiga hlut í fyrirtækinu. Fyrirtækið hefur gengið prýðilega vel frá upphafi en ég þurfti fljótlega frá að hverfa í náminu vegna mikilla anna. Þetta er búið að vera frábært ferðalag og fullt af áskorunum sem hefur sko alveg tekið blóð, svita og tár en vel þess virði.“
Fram til þessa hefur Kristín verið ein starfandi við fyrirtækið en í þessari viku bættist einn starfsmaður við, enda í nógu að snúast.
„Þegar við stofnuðum fyrirtækið fyrir ári síðan þá ákváðum við að einblína á innanlandsmarkaðinn og skoða okkur út fyrir landssteinana þegar það væri komið þokkalegt rennsli í gang hér heima. Ég er nýbyrjuð að senda ferskan fisk til Sviss og er komin með augun á nokkur önnur lönd“.
Hvað felst í þínu starfi?
„Ég er á öllum vígstöðvum og er það eina vitið til þess að láta fyrirtækið ganga upp. Ég annast sölu, dreifingu, bókhald og markaðssetningu og margt fleira. Einnig tek ég þátt í pökkun á sjávarafurðum sem AG Seafood framleiðir fyrir Blámar. Meðeigendurnir, bræður mínir hjá Icemar og Addi hjá AG Seafood hafa gefið mér dýrmæt ráð og góða handleiðslu. Þetta fyrirtæki væri ekki til nema fyrir þeirra tilstillan og þolinmæði og á ég þeim mikið að þakka“.
Hvernig finnst þér sjávarútvegurinn standa hér á svæðinu?
„Sjávarútvegur í Reykjanesbæ er ekki hátt skrifaður hér þó er hér fjöldinn allur af fyrirtækjum sem starfar innan þess geira og mikil gróska í gangi. Mér finnst persónulega mætti vera meiri vitundarvakning hjá almenningi hversu mikil verðmæti liggja í sjávarútveginum og fiskvinnslu og það liggja allskyns tækifæri því tengt. Ferðamarkaðurinn og sjávarútvegurinn er alveg málið í framtíðinni og finnst mér að ráðamenn sveitarfélaganna hér í kring mættu gefa meiri gaum af þessum fyrirtækjum eða a.m.k vita af þeim, ég talaði við eina persónu um daginn sem hefur verið viðloðin stjórnmál hér í Reykjanesbæ um árabil og hafði sá aðili ekki hugmynd um þau framleiðslufyrirtæki sem væru starfrækt með um 40-50 manns í atvinnu. Þessi atvinnuvegur hefur ekki verið hátt skrifaður hér í bæ í alltof langan tíma því miður. En nú eru breyttir tímar og fólk er aðeins farið að átta sig á því að ég og þú getum gert góða hluti án þess að braska með hluti og peninga“.