Bláa Lónið stofnar ferðaskrifstofu
Bláa Lónið er að færa út kvíarnar og hefur stofnað hlutafélagið Blue Lagoon Travel ehf. sem er ætlað að halda utan um rekstur ferðaskrifstofu, almennrar ferðaþjónustu og skipulagningu hópferða. Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag en nýtt tölublað blaðsins kom út í morgun.
Að sögn Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, þá er fyrirtækið að sækja um tilskilinn leyfi sem þarf til að sinna miðlun á ferðaþjónustu. „Við fáum hátt í eina milljón heimsókna á vefsíðuna okkar árlega. Þetta eru því ákveðin viðskiptaþróun sem við erum að vinna að,“ segir Grímur í samtali við Viðskiptablaðið.
Hann bætir við að Bláa Lónið ætli sér að fara mjög rólega af stað á þessum markaði. Nú er búið að stofna félagið og í kjölfarið verður sótt um ferðaskifstofuleyfi. Bláa Lónið er líklega vinsælasti ferðamannastaður Íslands en þangað koma langflestir þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja Ísland á ári hverju. Það eru því mikil tækifæri fyrir fyrirtækið á sviði ferðaþjónustu. Einnig hafa verið uppi áform um hótelbyggingu við Bláa Lónið en óljóst er hvenær verður af þeim framkvæmdum.