Bláa lónið greiðir 4,3 milljarða króna í arð til eigenda
Bláa lónið hagnaðist um 26,4 milljónir evra á síðasta ári eða því sem nemur um 3,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur var fyrir skömmu og fjallað er um á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, í dag. Hagnaður fyrirtækisins dróst saman um 17,5% í milli ára þegar hann nam 31 milljón evra. Tekjur félagsins námu 122,6 milljónum evra á síðasta ári eða um 17,4 milljörðum króna og jukust um 20% milli ára.
Eignir félagsins námu í lok síðasta árs 157,2 milljónum evra eða um 22,3 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 87,8 milljónir evra og eiginfjárhlutfall því um 56%. Á aðalfundi sem fram fór í dag var samþykkt að greiða út um 30 milljóna evra arðgreiðslu til eigenda eða því sem nemur um 4,3 milljörðum króna.