Bláa lónið ætlar að lifa og vinna með náttúruöflunum
„Ég leyfi mér að vera bjartsýn á sumarið og bókunarstaðan er ágæt,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu Bláa lónsins en fyrirtækið hefur ekki farið varhluta af jarðhræringunum í Grindavík og hefur m.a. þurft að hafa lokað í rúma þrjá mánuði frá því að hamfarirnar hófust 10. nóvember síðastliðinn. Framkvæmdir eru í gangi þar sem verið er að uppfæra aðstöðu í klefum og útisvæði. Markmiðið er að bæta enn upplifun gesta Bláa lónsins.
Það er alkunna að það hægist á ferðamannastraum fyrstu vikurnar eftir páska en Helga er bjartsýn á komandi sumar.
„Ef ég hugsa eitt ár til baka gæti ég trúað að við séum með um 50–70% af þeim fjölda sem heimsótti okkur á sama tíma í fyrra. Sumarvertíðin fer að byrja og við verðum tilbúin að taka á móti þeim gestum. Eins og áður erum við með allar viðbragðsáætlanir tiltækar og erum tilbúin til að loka komi til þess. Við höfum þurft að gera það nokkrum sinnum í vetur og hefur það gengið vel en mér reiknast til að við séum búin að þurfa að hafa lokað í rúma þrjá mánuði frá því að hamfarirnar hófust 10. nóvember. Við erum í mjög góðu sambandi og samtali við viðbragðsaðila og ferlið er alltaf að slípast og menn að átta sig betur og betur á stöðunni á svæðinu. Vonandi getum við haft sem mest opið í sumar og opnað sem fyrst aftur eftir hverja lokun. Viðbragðsaðilar og aðrir sem koma að því að rýna stöðuna eru miklir sérfræðingar á sínu sviði og það er gríðarlega gott að eiga þá að.“
Góð bókunarstaða
„Ég vil leyfa mér að vera vongóð um að sumarið eigi eftir að ganga vel, bókunarstaðan er fín og margir tala um hugsanlegt metár í flugtíðni til landsins. Hún mun væntanlega verða með besta móti en það eitt og sér er ekki nóg, það þurfa auðvitað að vera farþegar í sætunum á leið til landsins en ekki bara yfir hafið. Við eigum eftir að sjá hvað rætist úr sumrinu en ég er bjartsýn.“
Varnargarðarnir sem risu á örskömmum tíma á síðasta ári skipta sköpum og veita starfsfólki og gestum Bláa lónsins mikla öryggistilfinningu. Bláa lónið hefur verið í framkvæmdum að undanförnu, bæði lagfæringum og til að auka á upplifun ferðamannsins.
„Að sjálfsögðu veita varnargarðarnir okkur mikla öryggistilfinningu en við erum í stöðugu sambandi við viðbragðsaðila og erum fljót að bregaðst við ef gasmengun t.d. mælist, þá lokum við á meðan en opnum svo aftur. Staðan akkúrat í dag er þannig að búist er við nýju eldgosi á hverri stundu og við verðum einfaldlega að taka einn dag fyrir í einu.“
Bæta upplifun enn meir
Helga segir að framkvæmdir hafi hafist í janúar en bæði er um lagfæringar að ræða og uppbyggingu á nýju útisvæði. „Við viljum bæta upplifun gesta okkar enn frekar, bæði inni í klefum og úti. Við erum alltaf bjartsýn, við ætlum okkur að lifa með náttúruöflunum og vinna með þeim eins faglega og hægt er á hverjum tímapunkti og að sjálfsögðu með öryggið í fyrirrúmi,“ sagði Helga að lokum.