Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Björgunarsveitin treystir á góða flugeldasölu
Þriðjudagur 28. desember 2010 kl. 16:21

Björgunarsveitin treystir á góða flugeldasölu

Björgunarsveitin Suðurnes í Reykjanesbæ treystir á flugeldasöluna sem nú stendur yfir sem sína aðal fjáröflun fyrir starf björgunarsveitarinnar. Sveitin er ein af stærstu björgunarsveitum landsins með 95 björgunarmenn á útkallsskrá en kjarninn sem er til taks allan sólarhringinn telur um 55 þjálfaða menn og konur.

Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, sagði í samtali við Víkurfréttir að starfið á árinu sem er að líða hafi verið mikið. Á sjöunda tug útkalla bárust Björgunarsveitinni Suðurnes og voru þau fjölbreytt og mismunandi af stærð. Sveitin var með flokka björgunarmanna á gosstöðvunum bæði á Fimmvörðuhálsi og eins þegar gjósa tók í Eyjafjallajökli. Þá sendi Björgunarsveitin Suðurnes tvo þrautþjálfaða menn á hamfarasvæðin á Haíti þegar öflugur jarðskjálfti reið þar yfir í janúar sl. en Björgunarsveitin Suðurnes er aðili að Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni og leggur henni til bæði mannskap og búnað. Talsvert af búnaði frá sveitinni varð eftir á Haítí og hefur verið unnið að því á árinu að fá nýjan búnað í stað þess sem fór utan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand þá gengur björgunarsveitinni ágætlega að afla fjár til rekstrar. Flugeldasalan sem hófst í gær er hins vegar stór þáttur í fjáröflun til rekstrarins og skiptir gríðarlega miklu máli. Kári leggur því áherslu á að fólk hugsi vel um það hvar það kaupir flugeldana fyrir áramótin enda varpa björgunarsveitirnar fram þeirri spurningu fyrir áramótin, hvað þinn flugeldasali sé tilbúinn að gera fyrir þig en þar er bent á þann fjölda sjálfboðaliða sem eru tilbúnir að leggja á sig ómælda vinnu til að koma til hjálpar á neyðarstund.

Nýliðun í björgunarsveitinni er góð að sögn Kára. Unglingadeildin Klettur er starfrækt í samvinnu við björgunarsveitinna og þar eru þjálfaðir nýliðar fyrir björgunarsveitina. Unglingadeildin aðstoðar einnig við flugeldasöluna og sömu sögu er að segja af kvennasveitinni Dagbjörgu, sem einnig leggur sitt af mörkum.

Sölustaðir Björgunarsveitarinnar Suðurnes eru tveir. Í björgunarstöðinni við Holtsgötu 51 og við Reykjaneshöllina. Opið er kl. 10-22 og frá kl. 10-16 á gamlársdag.