Bílastofa Davíðs opnar í Reykjanesbæ
Davíð Ibsen er lærður bifvélavirki og hefur starfað sem slíkur með smá hléum síðan árið 1987.
En hvar byrjaði Davíð ferilinn?
„Ég var 15 ára þegar ég fór í starfskynningu hjá Edda Bó og Munda á Skiptingu. Í raun má segja að Eddi og Mundi hafi verið mínir kennarar og lærimeistarar í mörg ár. Ég hóf störf hjá Skiptingu árið 1987 og hef einnig starfað þar að undanförnu eða fram að stofnun BÍLASTOFU DAVÍÐS. Tíminn á Skiptingu var lærdómsríkur og kveð ég Edda sem vinnufélaga í góðri sátt. Ég stend á fertugu og hef starfað sem bifvélavirki í rúma tvo áratugi. Reynslan er því svolítil“.
Hvenær mun fyrirtækið opna og hvaða þjónusta verður í boði?
„BÍLASTOFA DAVÍÐS hefur nú þegar hafið störf og eru starfsmenn til að byrja með 2 en fjölgað verður í liðinu í takt við ný og stærri verkefni. Verkstæðið er staðsett að Grófinni 7 í Reykjanesbæ eða þar sem BG var áður með verkstæði. Við bjóðum upp á almennar bílaviðgerðir, smurþjónustu og stefnum jafnframt að frekari verkefnum, s.s. hjólbarðaþjónustu og fl. innan skamms tíma“.
Er markaður fyrir nýtt fyrirtæki á þessu sviði í Reykjanesbæ?
„Ég tel svo vera. Við munum leggja okkur fram um að veita persónulega og góða þjónustu. Í þessum bransa er traust frá viðskiptavinum lykillinn að árangri og munum við koma fram af heilindum við alla sem til okkar leita. Það mun taka tíma að byggja upp traust, það skiljum við, en ég vona að BÍLASTOFA DAVÍÐS fái góðar viðtökur í Reykjanesbæ. Að lokum vil ég bjóða nýja viðskiptavini velkomna til okkar, það er alltaf heitt á könnunni.“