Bílahornið hjá Sissa og Nesdekk opna í nýju húsnæði
Bílahornið hjá Sissa og Nesdekk opnuðu nú fyrir helgi ný og glæsileg húsakynni á Fitjum. Auk bílasölunnar var opnað nýtt þjónustuverkstæði sem bíður upp á almennar viðgerðir og dekkjaþjónustu.
Bílahornið selur bíla frá Bílabúð Benna af m.a. af gerðinni Chervolet sem hefur selst vel hér á Suðurnesjum. Jafnframt hefur fyrirtækið lagt áherslu sölu notaðra bíla og með nýja sýningarsalnum verður í fyrsta skipti boðið upp á sýningaraðstöðu innandyra fyrir notaða bíla.
Glerhýsið á Fitjum hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga og byggt var 590 fermetra húsnæði við það sem hýsir starfsemi Nesdekks. Í glerhýsinu er bílasalan með 900 fermetra sýningarsal. Að sögn Sigurvins Jóns Kristjánssonar (Sissa) verður í fyrsta skipti boðið upp á að sýna notaða bíla í sal. „Ef þú ert með flottan notaðan bíl getur þú sýnt hann í sal gegn ákveðinni þóknun. Bíllinn er þá vaktaður inni. Þetta hefur ekki verið í boði áður hér á Suðurnesjum,“ segir Sissi.
Við þetta tækifæri verður starfsemi fyrirtækisins útvíkkuð með sölu á vörum tengdum mótorsporti, s.s. fylgihlutum og fatnaði.
„Við sjáum ýmis tækifæri í að vera með vörur sem tengjast þessu. Bílasala er ekki vænleg í dag í þessu ástandi og því verða menn að leita annarra sóknarfæra til að hafa meðfram henni. Við höfum undanfarin ár t.d. rekið bílageymslu fyrir flugfarþega. Höfum þá tekið við bílunum upp í flugstöð og fært viðskiptavinunum þá við komuna til landsins á hvaða tíma sólarhrings sem er. Viðskiptavinurinn getur treyst því að við geymum bílinn innandyra. Við geymum bílana eingöngu inni en auglýsum ekki innigeymslu og höfum svo bílana úti. Þess vegna tökum við aldrei meira af bílum en við getum haft inni. Þetta hefur reynst mjög vel.“ segir Sissi.
Alls munu sjö manns starfa í húsinu. Sissi var inntur eftir því hvort ekki væri fullmikil bjartsýni að fara út í þessa framkvæmd í miðri kreppu. Hann svarar því til að ekki hafi verið til baka snúið þar sem framkvæmdirnar voru komnar það langt á veg þegar kreppan skall á í haust. „En er þetta ekki bara sóknarfæri?“ spyr Sissi á móti.
Í sama streng tekur Benedikt Eyjólfsson, eigandi Bílabúðar Benna og Nesdekks. Hann hefur í tugi ára rekið sitt fyrirtæki og þekkir þennan þjónustugeira afar vel.
„Það er einmitt tækifæri núna í kreppunni. Sissi hefur selt mikið af bílum frá okkur hér á svæðinu, en vissulega hefur hægst á þessu núna eins og allir þekkja. Auðvitað er ástandið slæmt á þessu svæði í dag og mikið atvinnuleysi en ég er sannfærður um að Suðurnesin fari langfyrst upp úr þessu. Ég hef fulla trú á þessu,“ sagði Benni.
----
VFmynd/elg - Sigurvin Jón Kristjánsson (Sissi) og Benedikt Eyjólfsson ( Benni) ásamt stafsmönnum í nýja húsnæðinu á Fitjum og þjónustustjóra Nesdekks, Ólafi Eyjólfssyni.