Betri tímasetningar hjá Iceland Express á Keflavíkurflugvelli
Stjórnendur Keflavíkurflugvallar hafa farið þess á leit við stjórnendur Iceland Express, að félagið flytji áætlunarferðir sínar aftur um eina til tvær klukkustundir á morgnana vegna mikils álags. Með þessu kemur Iceland Express til móts við þær aðstæður sem skapast í Leifsstöð og treystir um leið undirstöður nákvæmni og öryggis í áætlunar- og leiguflugi sínu. Vonast er til þess að bæði íslenskir og erlendir farþegar Iceland Express muni fagna þessum breyttu tímasetningum. Á allra næstu dögum verður sendur tölvupóstur til þeirra farþega sem þegar hafa bókað sig í ferðir með breyttum flugtíma.
Um leið eykst öryggi flugáætlunarinnar til muna og líkur aukast jafnframt á því að farþegar félagsins fái betri þjónustu en ella bæði við brottför og heimkomu. Algengasti brottfarartíminn frá Íslandi verður um og upp úr klukkan átta að morgni í stað sjö og annað flug færist til með svipuðum hætti.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum verður umtalsverð aukning flugumferðar um Keflavíkurflugvöll í sumar. Í tilkynningu frá Isavia, sem meðal annars annast rekstur flugvallarins og Leifsstöðvar kemur fram, að í stað þess að afgreiða 14-15 farþegaflug samtímis á hánnatíma að morgni og aftur síðdegis eins og gert var síðastliðið sumar, verður fjöldinn í ár að jafnaði 18-20 vélar. Einungis 14 flugvélar komast samtímis að flugstöðinni og því er ljóst að ekkert má út af bregða til þess að seinkun á einni vél eða óvæntar tafir í afgreiðslu geti orðið keðjuverkandi og um leið skapað öngþveiti og margskonar óþægindi fyrir farþega.