Besti mánuður í sögu Icelandair
Alls fóru 279.000 farþegar í millilandaflugi með Icelandair í júlí og voru farþegar því 10% fleiri en á sama tíma í fyrra. Það mun vera met, því aldrei í 75 ára sögu flugfélagsins hafa verið fluttir svo margir farþegar á einum mánuði.
Í tilkynningu frá Icelandair segir að framboðsaukning hjá flugfélaginu hafi verið 11% á milli ára. Sætanýting nam 85,3% og því á svipuðu róli og í fyrra þegar hún var 85,4%. Mest fjölgaði farþegum á N-Atlantshafsmarkaðnum, eða um 13%, og aukningin á ferðamannamarkaðinum til Íslands nam um 10%.
Farþegar í innanlands- og Grænlandsflugi voru um 38 þúsund í júlí sem er aukning um 1% á milli ára. Sætanýting nam 69,6% og dróst saman um 3,9 prósentustig á milli ára.
Fraktflutningar jukust um 7% á milli ára. Gistinóttum hjá hótelum félagsins jukust um 7% frá júlí á síðasta ári. Herbergjanýting var 88,0% og var 2,7 prósentustigum meiri en í júlí 2011.