Besta dæmið um nýtingu jarðvarma í heiminum
– Þrjú myndbönd frá Nýsköpunarþingi á Ásbrú
Mikil vinna hefur verið lögð í að formgera Auðlindagarðinn á Reykjanesi á síðustu mánuðum. Fjölmargir aðilar hafa komið að verkinu en það hefur verið leitt af Ríkharði Ibsen framkvæmdastjóra Bláa Demantsins, prófessor Þorsteini Inga Sigfússyni forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ingvari Eyfjörð athafnamanni, Jefferson William Tester prófessor við Cornell háskóla í Bandaríkjunum og Alberti Albertssyni frumkvöðli Auðlindagarðsins og aðstoðarforstjóra HS Orku.
Sýnin er einföld; endurnýjanleg auðlind og sjálfbær vinnsla - samfélag án úrgangs – 100% grænn Auðlindagarður með jarðvarma í grunninn - þar sem ekkert fer til spillis og hrat frá einu fyrirtæki getur verið aðföng annars. Þverfaglegt samstarf og samhæfing ólíkra þátta til að hámarka árangur, nýtingu og virkni.
Tester er einn af virtustu fræðimönnum í heimi á sviði orkumála og hefur látið í veðri vaka að Auðlindagarðurinn á Reykjanesi sé besta dæmið um nýtingu jarðhita í heiminum. Þar er fjölnýting í hávegum höfð og „spin off“ áhrifin hreint út sagt ótrúleg. Það sem samstarfsaðilar sjá fyrir sér er að aðstoða við frekari þróun garðsins hér á Íslandi og færa síðan þessa sýn á nýja markaði – nota Auðlindagarðinn sem módel endurnýjanlegrar orku og sjálfbærrar vinnslu og spegla árangurinn.
Nýsköpunarþing var haldið í Reykjanesbæ í október sl. þar sem Auðlindagarðurinn var í forgrunni. Þeir aðilar sem komu að þinginu voru HS Orka, HS Veitur, sveitarfélögin á Suðurnesjum, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Kadeco, Heklan, Sjávarklasinn, Jarðvarmaklasinn, Víkurfréttir, Keilir, Eimskip, Isavia, Íslandsstofa, IGS, Icelandair og Blái Demanturinn.
Hér má sjá þrjú stutt myndbönd sem taka saman þá sýn sem lögð var fram á þinginu.
Nýsköpunarþing á Ásbrú // Auðlindagarðurinn
Nýsköpunarþing á Ásbrú // Norðuríshafsleiðin
Nýsköpunarþing á Ásbrú // Flugsamgöngur