BESTA AFKOMA SPARISJÓÐSINS SÍÐAN 1982
Árið 1998 var eitt það besta í sögu Sparisjóðsins í Keflavík. Hagnaður Sparisjóðsins nam 111,2 milljón króna fyrir skatta á síðasta ári.Að teknu tilliti til skatta var hagnaðurinn 80,3 milljónir króna. Reiknaður tekjuskattur var 28,5 milljónir kr. og eignaskattur 2,4 milljónir kr. Til samanburðar má nefna að tap var á rekstri fyrirtækisins árið 1997 sem nam 77,1 milljón króna fyrir skatta og 55,2 milljón kr. eftir reiknaða skatta. Bætta afkomu má fyrst of fremst rekja til hagræðingar í rekstri og skipulagsmálum auk minna framlags í afskriftareiknings útlána. Arðsemi eigin fjár var 16% og hefur ekki mælst svo há síðan 1982. Í rekstraráætlun fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir góðri rekstrarafkomu. Þetta kemur fram í frétt frá Sparisjóðnum í Keflavík.Vaxtatekjur Sparisjóðsins námu á árinu 871,1 milljónum króna og vaxtagjöld Sparisjóðsins urðu 500,1 milljón króna á árinu. Hreinar vaxtatekjur námu því á árinu 371,0 milljónum króna samanborið við 333,7 milljónum króna árið 1997. Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðufjármagns var 4,18%. Aðrar rekstrartekjur voru 215,1 milljón króna á árinu og önnur rekstrargjöld 422,7 milljónir króna. Stærstu liðir annarra rekstrargjalda eru laun og launatengd gjöld sem námu 197,9 milljónum króna og annar almennur rekstrarkostnaður sem nam 208,5 milljónum króna. Afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna námu 14,7 milljónum króna. Framlag í afskriftareikning útlána var 52,3 milljónir króna en var 185,7 milljónir króna á síðasta ári. Sem hlutfall af niðurstöðu efnahagsreiknings var framlagið 0,56% en var 2,20% árið áður.Heildarinnlán í Sparisjóðnum í árslok 1998 ásamt lántöku námu um síðustu áramót 7,9 milljarði króna. Þannig jukust innlán um 753,8 milljónir króna eða um 10,5% frá árinu 1997. Útlán Sparisjóðsins ásamt markaðsskuldabréfum námu 7,6 milljörðum króna í árslok 1998 og höfðu aukist um 990,4 milljónir króna frá árinu áður eða um 14,9%. Breyting varð á fullnustueignum frá árinu á undan. Sá liður lækkaði um 30,4% og nam verðgildi þeirra 121,5 milljónum króna. Þessi liður hefur farið stiglækkandi undanfarin ár.Í árslok var niðurstöðutala efnahagsreiknings 9,3 milljarðar króna og hafði hún hækkað á árinu um 898,8 milljónir eða 10,6%. Eigið fé Sparisjóðsins í árslok nam 603,9 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins samkvæmt CAD-reglum er 9,71% en var 8,82% árið áður. Sparisjóðurinn í Keflavík er alhliða fjármálafyrirtæki sem hefur starfað á í rúm 90 ár. Sparisjóðurinn var stofnaður 1907 og byggir á traustum grunni. Sparisjóðurinn rekur fjórar afgreiðslur sem starfræktar eru í Keflavík, Njarðvík, Garði og Grindavík en höfuðstöðvar Sparisjóðsins eru í Keflavík. Starfssemi Sparisjóðsins er fjölbreytt og hann býður uppá mismunandi vörur og þjónustu sem henta breiðum hópi viðskiptavina hans.Hjá fyrirtækinu starfa um 75 starfsmenn. Sparisjóðsstjóri er Geirmundur Kristinsson. Aðalfundur Sparisjóðsins í Keflavík verður haldinn föstudaginn 12. mars n.k.