HSS sumarstörf 14-21 mars
HSS sumarstörf 14-21 mars

Viðskipti

Best að versla í heimabyggð
Föstudagur 16. nóvember 2018 kl. 06:00

Best að versla í heimabyggð

Fólk er farið að forðast stressið í borginni og er að átta sig á þeim lúxus að geta fengið allt sem það þarf innan eigin bæjarmarka hér á Suðurnesjum. Einu sinni horfðu margir til verslunar í borginni en nú er fólk að átta sig á þeim þægindum sem fylgja því að aka styttra og versla frekar heima. Það besta er að þá erum við í leiðinni að styðja við meira lifandi og skemmtilegri bæjarfélög.

Kaupvenjur fólks að breytast?

Public deli
Public deli

Það eru væntanlega breyttir tímar framundan eða svo ályktar blaðamaður Víkurfrétta eftir að hafa hitt nokkra vegfarendur á öllum aldri við Hafnargötuna í liðinni viku. Það er gaman að sjá allt vöruúrvalið sem aðalverslunargata bæjarins býður viðskiptavinum sínum upp á. Þjónustu- og verslunarkjarnar hafa einnig sprottið upp hingað og þangað í stærsta bæ Suðurnesja og bætt um betur við fjölbreytt vöruúrval sem íbúum stendur til boða. Það má kannski segja að Lindex og fleiri keðjur hafa komið hingað til Suðurnesja til þess að hjálpa fólkinu sem býr hérna að versla heima, styðja þar með við verslun í heimabyggð, sem er hið besta mál.

Það hefur mjög líklega verið keppikefli allra þeirra sem farið hafa af stað með verslun hér í heimabyggð að fólk ætti ekki að þurfa að leita til höfuðborgarinnar til að kaupa hitt og þetta en sá gamli vani hefur oft plagað vænlega verslun hér og nálægðin við borgina. Eins og ein orðaði það við blaðamann: „Að íbúar svæðisins eru orðnir rúmlega tuttugu þúsund talsins og ef allt þetta fólk myndi ákveða að versla heima þá væri öll verslun mjög blómleg hér á Suðurnesjum og þjónustustigið mjög hátt.“

Allt of mikil umferð í borginni

Miðað við viðbrögð þeirra vegfarenda sem blaðamaður rakst á í miðbæ Keflavíkur í vikunni þá eru jafnvel þessar breytingar í aðsigi á kaupvenjum þeirra sem búa hér á Suðurnesjum. Kannski allt umferðinni að þakka? Já, því það helsta sem fólk sá því til foráttu að kaupa vörur í Reykjavík í dag er öll þessi traffík og allt umferðaröngþveitið sem er orðið svo algengt á höfuðborgarsvæðinu. Fólk er einnig betur að átta sig á því að þær verslanir sem bjóða vörur til sölu í heimabyggð eru samkeppnishæfar við bæði verð og úrval í höfuðborginni. Svo sparar það heilmikinn tíma að fá að versla vörur þar sem fólk býr, svo ekki sé minnst á eldsneytissparnað og meiri þægindi. Það var einmitt það sem fólk er farið að horfa í að umferðin er orðin svo mikil á brautinni en einnig umferðarteppan sem myndast næstum alltaf í Hafnarfirði en þar er alþekktur svokallaður flöskuháls og aftur í Garðabæ áleiðis til Kópavogs. Fólk þarf að eyða mun meiri tíma í ferðalag til borgarinnar en áður vegna umferðarteppu sem flestir lenda í á leiðinni. Nú skreppur maður ekki lengur sisvona til borgarinnar.


Minna stress að versla heima
Fólk hafði jafnvel orð á því að eftir að flugfélögin fóru að rukka fyrir stærri töskur þá væri langódýrast að ferðast með handfarangur í dag. Minni taska kallaði á minni verslun í útlöndum eða eins og ein orðaði það að nú væri hún farin að upplifa meiri ánægju í utanlandsferðunum sínum og kæmi úthvíldari heim þegar hún væri ekki að þvælast lengur í verslunarmiðstöðvum erlendis heldur færi frekar á söfn eða í leikhús og út að borða. Maður þarf ekkert lengur að kaupa allt þetta dót í útlöndum því þetta fæst allt hérna heima og er yfirleitt á ágætis verði. Það kostar að fljúga og það kostar að aka til Reykjavíkur. Best væri því að versla heima. Já allskonar umræður fóru af stað þegar Víkurfréttir litu inn og hittu alls konar fólk á förnum vegi.  

Heitt kakó með rjóma

Þegar fólk var spurt út í hvað það vildi upplifa í jólagjafarölti um bæinn þá var það kaffihús sem byði upp á heitt kakó með rjóma og góðri tertu til að gæða sér á. Það væri gaman að geta notið þess að setjast inn á kaffihús eða veitingastað sem byði upp á slíkt með jólatónlist og skapa í leiðinni fallega jólastemningu í hjarta fólks. Jólin eru tími til að njóta og vera saman. Það er ekki spurning að framundan gætu íbúar Suðurnesja notið þess að versla í heimabyggð, það er bæði persónulegra og líklega skemmtilegra en í leiðinni erum við að byggja til framtíðar góðan lifandi stað til að búa á þar sem öll nútímaþægindi bjóðast. Ró og friður fylgir jólagjafakaupunum heima í ár.