Bandarískt fyrirtæki kaupir hlut í Kosmos & Kaos
Bandaríska vefhönnunarfyrirtækið UENO LLC hefur keypt þriðjung í íslenska vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos & Kaos. Þetta kemur fram í tilkynningu. UENO kemur að vefsíðum eins og Google, Pinterest, Youtube, Microsoft, Motorola, Medium, The Economist, Reytars, Fitbit, Tivo og Dropbox.
Guðmundur Bjarni Sigurðsson og Kristján Gunnarsson stofnuðu Kosmos & Kaos fyrir fjórum árum og starfa í dag 12 manns hjá fyrirtækinu, í Reykjavík og í Reykjanesbæ. Fyrirtækið hefur vakið athygli á uppbyggingarárum, meðal annars fyrir áherslu á samfélagslega ábyrgð, umhverfisvernd og lýðræði í ákvarðanatöku. Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru Vodafone, Bláa lónið, Orkuveitan, Harpa, Nordic visitor, Sjóvá og Ölgerðin.