Baka flatkökur í gömlu hafnarvigtinni
- Vinsælar flatkökur hjá mæðgum í Vogum
Mæðgurnar Þóranna Þórarinsdóttir og Brynja Kristmannsdóttir reka saman Brælubakaríið í húsnæði gömlu hafnarvigtarinnar í Vogum. Þar baka þær flatkökur sem notið hafa mikilla vinsælda. Þóranna er búin að standa í bakstri í um þrjátíu ár og byrjaði heima og þá með annarri vinnu. Nýlega lét hún af störfum hjá Þorbirninum eftir 37 ára starf og ætlar núna að einbeita sér alfarið að bakstrinum. Brynja dóttir hennar er líka nýhætt í sinni vinnu vegna anna við baksturinn.
Að sögn Þórönnu er eftirspurnin eftir flatkökunum mikil og alltaf að aukast. Þær hafa aldrei auglýst enda spyrst það út hversu góðar flatkökurnar eru. Flatkökurnar eru seldar í verslun í flugstöðinni og í Góðum kosti í Njarðvík. Á næstunni má svo búast við flatkökunum í fleiri verslunum. Þá eru flatkökurnar einnig vinsælar hjá íþróttafélögum til að selja til fjáröflunar.
Þóranna er úr Keflavík en hefur búið í Vogum í 45 ár og segist því vera orðin meiri Vogamaður en Keflvíkingur. Gamla hafnarvigtin er aðeins 20 fermetrar og sú stærð dugar þeim mæðgum enn sem komið er. Hver dagur byrjar á því að hnoða deigið í flatkökurnar. Þær hnoða allt deigið í höndum og notast aldrei við hrærivélar. „Þær eru líka betri kökurnar sem hnoðaðar eru í höndum en í vél,“ segir Þóranna að lokum, önnum kafinn við baksturinn.