Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Atvinnu- og nýsköpunarhelgin virkjar Suðurnesjamenn til að kynda undir atvinnulífinu á svæðinu!
Þriðjudagur 20. september 2011 kl. 09:29

Atvinnu- og nýsköpunarhelgin virkjar Suðurnesjamenn til að kynda undir atvinnulífinu á svæðinu!

Atvinnu- og nýsköpunarhelgi verður haldin á Suðurnesjum þann 30. september til 2. október á Suðurnesjum. Helgarnar eru samstarfsverkefni Landsbankans, Innovit og sveitarfélaga landsins. Atvinnu- og nýsköpunarhelgarnar (ANH) verða haldnar um land allt næstu mánuðina í þeim tilgangi að virkja fólk til athafna og láta góðar hugmyndir verða að veruleika. Á helgunum fá þátttakendur tækifæri til þess að vinna saman að frumgerð vöru eða þjónustu sem síðar getur orðið að fullvaxta fyrirtæki.
Allir geta tekið þátt, bæði þeir sem eru með viðskiptahugmynd og þeir sem vilja vera með í teymi sem vinnur að viðskiptahugmynd. Fjölmargir aðilar með víðtæka reynslu og menntun munu einnig kíkja við yfir helgina, setjast niður með teymum og aðstoða þau við framgöngu hugmyndarinnar. Þá verða nokkur 5-10 mínútna erindi flutt sem eru praktísk og snúa að uppbyggingu hugmyndarinnar. Að helginni lokinni geta þátttakendur síðan unnið áfram með vel mótaðar viðskiptahugmyndir og látið þær verða að veruleika. Verðlaun eru veitt í nokkrum flokkum.

Erlend fyrirmynd helgarinnar er Startup Weekend (www.startupweekend.org), en slíkar helgar eru haldnar víðs vegar um heiminn til þess að aðstoða fólk við að keyra viðskiptahugmyndir af stað. Startup helgarnar hafa verið haldnar í meira en 100 borgum í 25 löndum. Þá hafa yfir 15.000 manns sótt þá fjölmörgu viðburði sem hafa verið haldnir og yfir 2000 sprotar myndast í kjölfarið.

Að baki helginni standa fjöldi aðila á Suðurnesjum, svo sem öll sveitarfélögin, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Heklan - nýtt atvinnþróunarfélag Suðurnesjamanna, Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, Samband atvinnurekenda á Reykjanesi, og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Að auki nýtur helgin stuðnings fjölda annarra aðila og fyrirtækja. Umsjónaraðili verkefnisins er Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur en viðburðirnir eru haldnir með stuðningi og í nánu samstarfi við Landsbankann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ferlið er í stuttu máli á þessa leið:
Þátttakendur sem eru með viðskiptahugmynd halda stutta kynningu á henni. Það er í góðu lagi að hugmyndin sé á byrjunarpunkti og kvikni jafnvel á staðnum.
Mynduð eru teymi um þær hugmyndir sem mestan hljómgrunn fá og unnið er áfram með þær yfir helgina.
Settar eru vörður um hvernig beri að þróa viðskiptahugmyndina yfir helgina og hvaða vörðum hópurinn ætli sér að ná.
Samvinna er lykill helgarinnar.
VINNA ! VINNA ! VINNA!
Kynningar á hugmyndunum og verðlaunaafhending

Athugið að viðburðurinn er fyrir alla þá sem vilja vera með og leggja atvinnusköpun og nýsköpun lið með kröftum sínum og þekkingu - ekki bara þá sem eru með viðskiptahugmynd!
Boðið er upp á léttar veitingar yfir helgina.
Blásið verður til leiks seinnipart dags föstudaginn 30. september og helginni lýkur seinnipart sunnudagsins 2. október og fer viðburðurinn fram í húsakynnum Keilis á Ásbrú.
Allir geta tekið þátt og það kostar ekkert! Skráið ykkur á vefsíðunni www.anh.is þar sem þið getið líka fengið frekari upplýsingar!
Þeir sem eru á Facebook geta líka fylgst með þar: www.facebook.com/ANHSudurnes
Ath þó að skráning þarf að fara fram í gegnum heimasíðuna.