Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Athafnasamur frumkvöðull á Suðurnesjum
Sunnudagur 21. nóvember 2010 kl. 12:31

Athafnasamur frumkvöðull á Suðurnesjum


Vikan 15.-21. nóvember er Alþjóðleg athafnavika, Global Entrepreneurship Week. Einn af talsmönnum Athafnaviku er Bjarndís Helena Mitchell, frumkvöðull, sem búsett er í Innri Njarðvík. Bjarndís hefur stofnað fyrirtækið Handlers ehf., sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á sýningartaumum fyrir hunda. Skv. vefsíðunni athafnavika.is er hlutverk talsmanna Alþjóðlegrar athafnaviku 2010 að  minna á gildi athafnasemi fyrir samfélagið með umfjöllun og þátttöku í viðburðum. Þeir hafa ólíkan bakgrunn og vekja því athygli á ýmsum þáttum athafnasemi. Allir eiga þeir þó sameiginlegt að vera jákvæðar fyrirmyndir og trúa á mikilvægi nýsköpunar og athafnasemi fyrir íslenskt samfélag.


Hvernig kom það til að þú varðst talsmaður Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þar sem ég hef verið að vinna með fyrirtækið í Viðskiptasmiðjunni hjá Klak, nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, og tekið þátt í ýmsum viðburðum þar, ákvað Innovit, sem eru umsjónaraðilar vikunnar á Íslandi, að biðja mig um að vera talsmaður athafnaviku. Talsmenn athafnaviku eru úr ýmsum áttum og má segja að þarna sé þverskurður úr atvinnulífinu. Sem fulltrúi Suðurnesjanna og hundamenningarinnar á Íslandi sagði ég að sjálfsögðu já. Fyrir mig þýðir þetta tækifæri til að gera eitthvað uppbyggilegt og hvetja fólk til athafna, hvar sem ég kem því við, sem mér finnst mjög mikilvægt.

Hvernig varð fyrirtækið þitt, Handlers, til?

Það var svo margt sem kom til, en eftir hrunið varð ég þess áskynja að nú þyrfti sem aldrei fyrr að gefa í og koma með nýjar útflutnings-vörur til að skapa bæði gjaldeyristekjur og atvinnu hér á landi. Það er ekki nóg að allir séu að hrærast í sama grautnum, það vantar meira úrval og fjölbreytileika í flóru atvinnulífsins, ekki síst hér á Suðurnesjum. Ég var með þetta hugfast lengi vel þegar einn daginn Hundaræktarfélag Íslands var að halda tvöfalda afmælissýningu. Mig vantaði sárlega lausn varðandi sýningartaum fyrir hundana mína. Þá hannaði ég minn eigin taum og setti á hann handfang sem leysti helsta vanda minn með hefðbundna sýningartauma. Fleiri prófuðu og voru mér sammála að þetta væri mun þægilegra, og þar að auki fallegra en sú lausn sem fyrir er á markaðnum, og þannig varð hugmyndin að Handlers til.

Hugmynd verður að veruleika


Ég var svo heppin að í Virkjun uppi á Ásbrú voru fundir þar sem fólk með hugmyndir kom saman. Ég sá þá auglýsta í Víkurfréttum og ákvað að prófa að mæta á einn fund, þrátt fyrir feimni, óframfærni og verandi fullviss um að engum myndi lítast vel á eitthvað hundaband sem fyrirtækjahugmynd. Á fundinum var tekið mjög vel á móti mér og hugmyndinni minni og ég fékk mjög jákvæða og styrkjandi ráðgjöf til að ganga lengra með verkefnið. Í kjölfarið sótti ég fjölda námskeiða og fyrirlestra sem hjálpuðu mér áfram, margt var frítt, t.d. í boði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjunum, auk þess sem ég sótti mér frekari ráðgjöf. Það er hægt að fá mjög mikla ráðgjöf og stuðning þegar maður veit hvert maður á að leita, og oft án þess að leggja fram fúlgur fjár.

Það sem mestu máli skiptir er að það sé til vettvangur; ráðgjöf, námskeið, handleiðsla, styrkjaumhverfi, samtök og allskonar stuðningur fyrir frumkvöðla eins og mig. Fólki dettur oft ekki í hug að þetta sé einmitt fyrir venjulegt fólk, ekki bara einhverja útvalda sem kalla sig „frumkvöðla“ Ég er mjög ánægð að sjá að það er verið að gera enn betur í þessum stuðningi, t.d. með starfsemi Frumkvöðlasetursins á Ásbrú, en þar er einmitt verið að leiða saman allt þetta sem ég hef verið að nýta mér, svo sem endurgjaldslausa ráðgjöf, námskeið og ýmsan stuðning við þá sem vilja gera viðskiptahugmynd að veruleika, og verið að byggja upp miðstöð til að styðja við þá sem eru í sömu sporum og ég.


Hvar er Handlers statt í dag?

Fyrirtækið var formlega stofnað 11. nóvember 2009. Við erum því nýorðin eins árs. Við erum komin á markað með vöruna og búin að fá staðfestingu á því að handfangið, sem ég hannaði, er einkaleyfishæft, og við erum í skráningarferlinu bæði hérlendis og erlendis. Við höfum sótt tvær af stærstu hundasýninum heims til að markaðssetja okkur og ég er á leið til Noregs núna á næstu dögum á sýningu. Vefsíðan okkar, og vefverslun, originalhandlers.com, fór í loftið í apríl síðastliðnum. Við erum nú þegar með níu umboðsaðila víðsvegar um heim og erum með sex söluaðila hérlendis. Í október sl. kynnti ég fyrirtækið á Seed Forum Iceland, fjárfestaráðstefnunni, og er núna að vinna í því að fá frekara fjármagn inn í fyrirtækið til að fjármagna vöxt þess. Nú ríður á að geta framleitt nóg til að mæta eftirspurn, einkaleyfisferlið kostar sitt og einnig þarf frekari innspýtingu í markaðssetningu. Ég hef fengið styrki, t.d. frá Byggðastofnun til markaðssetningar og Nýsköpunarmiðstöð Íslands til að gera viðskiptaáætlun og fyrir vöruprófun, en betur má ef duga skal.

Björt framtíð í hundaheiminum

Framtíðin er björt og viðtökurnar á taumunum, lausnunum og útfærslunum eru mjög jákvæðar innan sýninga- og hundaheimsins. Þetta er mjög sérhæfð markaðssylla þar sem eru miklir möguleikar. Það er því margt mjög spennandi að gerast, segir Bjarndís áður en hún rýkur út úr dyrunum, á leiðinni á vinnustofuna áður en hún þarf að mæta á námskeið á eftir. Það vantar sko ekki athafnasemina þar!