Árnína Steinunn Kristjánsdóttir ráðin til SpKef Sparisjóðs
SpKef sparisjóður hefur ráðið Árnínu Steinunni Kristjánsdóttur í stöðu regluvarðar hjá sjóðnum. Árnína hefur síðastliðinn 6 ár starfað sem lögfræðingur NASDAQ OMX kauphallarinnar á Íslandi. Árnína lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2001, hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2002 og lauk prófi í verðbréfaviðskiptum árið 2006.
Árnína hefur setið í nefndum á vegum Viðskiptaráðuneytisins varðandi breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti og lögum um kauphallir auk þess sem hún var starfsmaður Yfirtökunefndar þau ár sem hún starfaði. Árnína átti einnig sæti í samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila. Þá hefur Árnína kennt námskeið í verðbréfanámi í HR, auk stundakennslu í viðskiptalögfræði við sama skóla og Endurmenntun HÍ. Árnína hefur verið formaður barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar frá árinu 2002. Árnína er gift Kristjáni Árna Jakobssyni viðskiptafræðingi og eiga þau einn son.