ARKNES opnar að Ásbrú
Bjarni Marteinsson hefur starfrækt Arkitektastofu Suðurnesja í Reykjanesbæ um árabil. Upphafið af starfsemi stofunnar á Suðurnesjum var samkeppni um skipulag gamla bæjarins í Keflavík og götuhönnun en tillaga stofunnar hlaut 1. verðlaun og var unnin í áföngum næstu árin. Bjarni hefur nú komið sér fyrir með Arkitektastofu Suðurnesja, ARKNES, í fyrirtækjahótelinu Eldvörpum á Ásbrú, þar sem hann dustar nú rykið af gömlum og góðum hugmyndum sem hann hefur unnið að, m.a. í Reykjanesbæ.
Í samtali við Víkurfréttir segir Bjarni að hann hafi mikið unnið í deiliskipulagi fyrir eldri hluta Keflavíkur og hefur verið lögð mikil vinna við hinar ýmsu tillögur skipulagsins. Hann segir að því miður hafi þessi vinna aldrei klárast nema að litlu leiti og væri full þörf á að endurskoða öll þau gögn og tillögur sem liggja fyrir á stofunni og víðar. Þar hefur Bjarni mestan áhuga á sjávarhlið Hafnargötunnar þar sem hann segir að ýmsar spennandi hugmyndir hafi legið fyrir án endanlegrar niðurstöðu.
„Þarna eru stórkostleg tækifæri ónotuð í bæjarfélaginu. Einnig er Vatnsnesið spennandi tækifæri og viðfangsefni,“ segir Bjarni. Hann segir einnig Heildarskipulag Grófarinnar varla á hreinu og gerði teiknistofan tillögu að íbúðasvæði við smábátahöfnina að beiðni áhugasamra verktaka. Þarna liggja verulegir framtíðarmöguleikar, að sögn Bjarna.
Hann segir þá tíma sem við lifum í dag ekki rétta tímann til framtíðarbyggingardrauma en hugmyndir verði að vera fyrir hendi og oft verða þær frjóar í andstreymi tímans, þegar menn komast niður á jörðina. Hann segir það ósk sína að við opnun stofunnar á Ásbrú sé unnt að dusta rykið af gömlum hugmyndum sem skapast hafa í gegnum tíðina og koma þeim af einhverju leiti í lögbundið deiliskipulag áður en um seinan verður.
ARKNES er að Flugvallarbraut 752 að Ásbrú, síminn er 896 5506 og póstfangið [email protected].
[email protected]