Arkitektur.is opnar í Reykjanesbæ
Arkitektur.is hefur opnað útibú í Reykjanesbæ að Víkurbraut 13 en fyrirtækið hefur þegar útibú á Akureyri og er með höfuðstöðvar í Reykjavík. Ólafía Ólafsdóttir, innanhúsarkitekt, mun hafa umsjón á stofunni. Ólafía rak Teiknistofuna Studiola í Reykjanesbæ í sjö ár en hefur nú tekið til starfa hjá Arkitektur.is.
Páll Tómasson einn eigenda sagði í samtali við Víkurfréttir að fyrirtækið ætlaði að ráða arkitekta til starfa í Reykjanesbæ. Páll lét vel í veðri vaka um framtíðarhorfur fyrirtækisins í Reykjanesbæ. „Hér er framtíðin og krafturinn sagði Páll í samtali við Víkurfréttir. „Reykjanesbær er frábær og við sjáum ákveðin tækifæri í því að vera á hinum enda þenslupunktsins sem er að prjónast saman,“ sagði Páll sem er Akureyringur að upplagi og segist því þekkja vel til staða eins og Reykjanesbæjar sem blásið hafa til sóknar. „ Við erum að skipuleggja Stapahverfið hér í Reykjanesbæ sem er framhald af Dalshverfinu og við vinnum einnig talsvert fyrir einkaaðila. Það er mjög spennandi að vera arkitekt á Suðurnesjum þessa dagana,“ sagði Páll að lokum.
Arkitektur.is hannaði m.a. Safnaðarheimili Keflavíkurkirkju og Íþróttaakademíuna í Reykjanesbæ. Hjá fyrirtækinu starfa 14 manns og þar af eru 12 arkitektar og vefsíðan er www.arkitektur.is
VF-mynd/ [email protected] - Frá opnunarhófi Arkitektúr.is sem haldið var í s.l. viku.