Arion banki með 60 starfsmenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
– Arion banki verður með þrjár nýjar afgreiðslur og verða 13 hraðbankar staðsettir víðsvegar um flugstöðvarbygginguna.
Arion banki tók yfir alla bankaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á miðnætti í gær. Þannig mun bankinn nú sinna þjónustu við komu- og brottfararfarþega í flugstöðinni og verður höfuðáhersla á gjaldeyrisþjónustu og þjónustu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts.
Arion banki verður með þrjár nýjar afgreiðslur og verða 13 hraðbankar staðsettir víðsvegar um flugstöðvarbygginguna, er þar um umtalsverða aukningu að ræða frá því sem verið hefur. Þjónustan verður hins vegar fyrst um sinn veitt í bráðabirgðaraðstöðu á tveimur stöðum í flugstöðinni á meðan afgreiðslur bankans verða settar upp. Viðskiptavinir eru beðnir velvirðingar á þessu millibilsástandi þar til nýjar afgreiðslur verða opnaðar 8. maí næstkomandi.
Arion banki mun veita þjónustu allan sólarhringinn á háannatíma ársins, það er yfir sumartímann og fram í október, og munu þá um 60 starfsmenn sinna þjónustunni. Meðal þeirra er fyrrum starfsfólk Landsbankans sem sinnt hefur bankaþjónustu á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár, en Arion banki réð til starfa alla úr þeim hópi sem sóttust eftir því að sinna áfram þjónustu í flugstöðinni.
Farþegaspá fyrir árið 2016 áætlar að 6,7 milljónir farþega muni fara um Keflavíkurflugvöll og ef hún gengur eftir er það fjölgun um 37% milli ára. Gera má ráð fyrir því að hátt í hálf milljón farþega á ári muni nýta sér þá þjónustu sem Arion banki býður á Keflavíkurflugvelli.