Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Annað líf fyrir föt og fylgihluti
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 17. ágúst 2020 kl. 13:12

Annað líf fyrir föt og fylgihluti

„Trendport er fatamarkaður þar sem fólk kaupir og selur notuð föt og fylgihluti, svo sem veski, skó og ýmislegt skart. Við erum bæði með barna- og fullorðinsbása, þannig að hvort heldur sem þú ert að leita að fötum á þig eða börnin þá eru allar líkur á því að þú getir gert góð kaup,“ segir Þórlaug Jónatansdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Trendport ehf., sem nýverið opnaði við Hafnargötu 60 í Keflavík.

— Hvernig kom þetta til?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hugmyndin kviknaði þegar ég var að fara í gegnum skápana síðastliðið haust og fannst ég þurfa að losa mig við eitthvað af þeim fötum sem ég var ekki mikið að nota. Ég hafði auðvitað oft gefið í rauða krossinn en ég var með föt sem voru kannski ekki kominn á þann stað að gefa þau. Þá fór ég að skoða þessa fatamarkaði. Þá þurfti að fara til Reykjavíkur og einnig var löng bið eftir að fá leigðan bás auk þess sem það er vesen að þurfa að keyra 80 km fram og til baka til að sjá um básinn. Þannig komst ég að þeirri niðurstöðu að það hlyti að vera markaður fyrir þessa þjónustu á Suðurnesjunum. 

Nú geta Suðurnesjamenn stokkið til og verslað þegar þeir sjá eitthvað til sölu inni á Trendport – til sölu gúppunni á Facebook sem þau langar í. Því það er stór hluti af svona markaði að það eru sífellt að koma „nýjar“ vörur í básana og því þarf oft að vera snöggur til að ná henni.

— Hvernig voru viðtökurnar?

Þetta fór alveg langt fram úr okkar björtustu vonum og kom okkur skemmtilega á óvart. Við vissum ekki alveg við hverju mætti búast með því að opna fatamarkað í miðjum júlí í miðjum Covid faraldri, þegar útsölur eru í hámarki og allir í ferðalögum. En það var bæði mikill áhugi á því að leigja bása og svo hefur verið stanslaus sala frá því að opnuðum. Það sýnir sig líka að flottar vörur, sérstaklega merkjavara stoppar ekki lengi og selst á góðu verði, bæðir fyrir seljendur og kaupendur.

— En hvernig virkar þetta?

Trendport er eins einfalt og hugsast getur fyrir bæði viðskiptavini og þá sem vilja selja notaðar flíkur. Þú leigir hjá okkur bás, skráir fötin sem þú vilt selja inn á innri vefinn okkar ásamt því að ákveða verðin þín sjálfur. Eftir það færðu afhent strikamerki sem þú festir við hverja flík og hengir upp á básinn, en innifalið í básaleigunni eru herðatré, stærðarmerkingar og þjófavarnir. Svo getur þú farið heim og fylgst með sölunni heima á innra kerfinu hjá okkur. Við stöndum í raun vaktina fyrir þig og seljum vörurnar fyrir þig.

— Er þetta umhverfisvænt?

Það sem heillaði mig líka var hugmyndin um að endurnýta. Það er nóg til af fatabúðum með ný föt. Og með aukinni verslun landans við netverslanir erlendis, þar sem fólk kaupir föt sem það getur ekki mátað og þarf í raun að giska á stærðirnar, þá stuðlar það að enn frekari fatasóun en hefur verið undanfarið. Með því að kaupa og selja notuð föt og fylgihluti eignast þau annað líf. Það dregur úr mengun og bætir þar af leiðandi umhverfið og stuðlar að betri heimi. Svo er ekki verra að geta fengið smá pening fyrir í leiðinni. Hér er hægt að selja af sér það sem maður notar ekki en týmir ekki að henda eða gefa.“

Ég held við gerum okkur ekki grein fyrir því að textílframleiðsla stendur fyrir um 10% af kolefnislosun á heimsvísu. Það er meira en frá farþegaflugi sem þó hefur verið mikið í umræðunni. 

Íslendingar eru orðnir mun meðvitaðri um umhverfismálin, sóun og endurnýtingu. Við þurfum að tileinka okkur ný viðhorf, og með því að nýta fötin betur þá drögum við úr þessum áhrifum á umhverfið. Þannig finnum við það hjá viðskiptavinunum, bæði söluaðilum sem og kaupendum að þessu fylgir ákveðin vellíðan sem er gaman að vera hluti af.