Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Algalíf kaupir húsnæði og stækkar reksturinn í Reykjanesbæ
Mánudagur 30. apríl 2018 kl. 09:33

Algalíf kaupir húsnæði og stækkar reksturinn í Reykjanesbæ

Líftæknifyrirtækið Algalíf hefur fest kaup á núverandi húsakynnum þess á Ásbrú í Reykjanesbæ. Húsnæðið leigði félagið áður af Þróunnarfélagi Keflavíkurflugvallar. Með kaupunum kemur til Íslands ný erlend fjárfesting upp á 350 milljónir en norskir eigendur fyrirtækisins hafa þegar fjárfest rúmlega 3 milljörðum króna í fyrirtækinu.
 
Kaup á húsnæðinu festir starfsemi fyrirtækisins á Íslandi enn frekar í sessi en Algalíf er leiðandi í heiminum í ræktun á örþörungum og framleiðslu virkra efna úr lífmassa þeirra. Til þessa hefur Algalíf sérhæft sig í ræktun örþörungsins Haematococcus pluvialis, sem virka efnið astaxanthin er unnið úr. Fyrirtækið hefur hafið þróun á ræktun á öðrum tegundum þörunga sem hægt er að vinna arðbærar afurðir eins og fæðubótarefni og matvæli úr.
 
Að sögn Orra Björnssonar, forstjóra Algalíf, eru húsakaupin mikilvægur áfangi í að tryggja hátæknistörf á Reykjanesi til framtíðar þrátt fyrir óhagstæð rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja þessi misserin.  Þar skiptir mestu sveiflur í gengi íslensku krónunnar og hátt vaxtastig. Rekstur Algalíf hefur gengið samkvæmt áætlun og stefnir í að skila rekstrarhagnaði árið 2018 og verulegum hagnaði á því næsta. Áætlaðar rekstrartekjur árið 2018 eru tæpur milljarður. Hjá fyrirtækinu starfa 34 manns. 
 
Líftæknifyrirtækið Algalíf bauð fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og þingmönnum Suðurkjördæmis í heimsókn og skoðunarferð um fyrirtækið sl. föstudag. Í heimsókninni kynntu gestirnir sér starfsemi fyrirtækisins og ræddu við starfsmenn um starfsemina, vaxandi markað fyrir ræktun örþörunga og stuðning og stefnumótun stjórnvalda við lítil og meðalstór nýsköpunarfyrirtæki.
 
Í heimsókninni bar stuðningur stjórnvalda við lítil og meðalstór fyrirtæki einnig á góma en Algalíf hyggur á sókn í þróun- og nýsköpun í örþörungarækt á næstu árum.  Örþörungarækt er ört vaxandi iðnaður í heiminum og hluti af hinu svokallaða bláa hagkerfi. ESB og mörg lönd í Evrópu hafa markað sér framtíðarstefnu um sjálfbærni bláa hagkerfisins og örþörungarækt er þar ein af lykilstoðunum. Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki markað sér stefnu í þessa veru og markvissari stuðning skortir við nýsköpunarfyrirtæki í líftækniiðnaði. Að sögn Orra skiptir stuðningur stjórnvalda miklu fyrir fyrirtæki í iðnaði sem er enn mótun á heimsvísu en fer ört vaxandi.  „Með markvissri stefnumótun og betri undirstöðum fyrir rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækja í líftækni getur fyrirtæki eins og Algalíf, sem hefur nú þegar hefur náð ákveðnu forskoti á markaði, náð miklum vexti á skömmum tíma og þannig skapað miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og aukið fjölbreytni í atvinnulífinu.“

 
 
Á efstu myndinni eru frá vinstri talið:
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður; Tryggvi Stefánsson, rannsóknastjóri Algalíf; Oddný Harðardóttir, þingmaður; Haraldur Garðarson gæðastjóri Algalíf; Orri Björnsson, forstjóri Algalíf; Birgir Þór Birgisson, þingmaður; Davíð Lúðvíksson, sviðsstjóri samkeppnissviðs SA; Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI; Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024