Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

  • Algalíf fjölgar starfsmönnum
    Líftæknismiðja Algalíf á Ásbrú. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Algalíf fjölgar starfsmönnum
Sunnudagur 17. maí 2015 kl. 00:13

Algalíf fjölgar starfsmönnum

Algalíf hefur lokið við uppsetningu fyrsta áfanga líftæknismiðju sinnar á Ásbrú sem er um þriðjungur af áætlaðri stærð verksmiðjunnar. Þar hefur framleiðsla staðið yfir frá síðasta sumri en fyrsta uppskera var í júní í fyrra. Í verksmiðjunni eru ræktaðir örþörungar sem nefnast Haematococcus Pluvialis, en úr þeim er unnið virka efnið Astaxanthin. Mikill og vaxandi markaður er fyrir efnið og heimsframleiðslan núna annar hvergi nærri eftirspurn.

Orri Björnsson, framkvæmdastjóri Algalíf, sagði í samtali við blaðið að allt hafi gengið samkvæmt áætlunum og nú sé verið að vinna að frekari stækkun líftæknismiðjunnar. Gert sé ráð fyrir að eftir ár verði líftæknismiðjan þar sem Astaxanthin er framleitt fullbyggð.

Algalíf er einnig að hefja framleiðslu á öðru einföldu efni til hliðar við Astaxanthin-framleiðsluna. Það mun skapa 2-3 störf hjá Algalíf.

Algalíf leitar nú að húsnæði við sjó á Suðurnesjum til að fara í enn frekari þörungarækt með samstarfsaðila sínum. Nauðsynlegt er að vera við sjó, þar sem saltvatn er notað við þá framleiðslu. Þar er Algalíf í samstarfi við breska fjárfesta. Vilji er til þess að sú framleiðsla verði á Suðurnesjum því nálægð við líftæknismiðju Algalíf á Ásbrú skiptir miklu máli.

Í dag starfa tuttugu manns hjá Algalíf. Helmingur þeirra starfa eru hátæknistörf og helmingur framleiðslustörf. Störfum mun fjölga umtalsvert á næstu mánuðum en gert er ráð fyrir að starfsmenn Algalíf verði orðnir 35 fyrir lok þessa árs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024