Algalíf á Ásbrú stækkar og meira en þrefaldar framleiðsluna - störfum fjölgar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar tóku í gær fyrstu skóflustungu að nýrri verksmiðju líftæknifyrirtækisins Algalífs að Axartröð 1 á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hin nýja 7.000 m² verksmiðja mun rísa við hlið núverandi 5.500 m² starfsstöðvar Algalífs. Rúmlega eitt hundrað innlend störf verða til á framkvæmdatímanum 2021 til 2023.
Byggðir verða um 7.000 m2 og húsnæðið fer því úr 5.500 m2 í um 12.500 m2. Ársframleiðslan fer úr rúmum 1.500 kg af hreinu astaxanthíni í rúm 5.000 kg. Verksmiðjusvæðið mun þannig meira en meira en tvöfaldast en framleiðsla á astaxanthíni rúmlega þrefaldast. Varanlega störf verða um 80 eftir stækkun. Algalíf er nú þegar stærsta og öflugasta þörungafyrirtæki á Íslandi og með þeim stærstu í Evrópu. Eftir stækkun verður það eitt stærsta örþörunga fyrirtæki í heimi og stærsti framleiði heims á astaxanthíni.
Líftæknifyrirtækið Algalíf Iceland framleiðir örþörunga í lokuðum hátækni vatnskerfum og vinnur úr þeim astaxanthín sem nýtt er í fæðubótaefni og snyrtivörur um allan heim. Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og er í eigu norskra fjárfesta. Sá sem leitt hefur uppbyggingu þess er forstjórinn Orri Björnsson. Nú starfa um fjörutíu manns hjá fyrirtækinu og ársveltan yfir einn og hálfur milljarður króna. Nánasta allar afurðir eru fluttar út og skapa gjaldeyristekjur.
Í desember 2020 var tilkynnt um fjögurra milljarða erlenda fjárfestingu frá eigendum fyrirtækisins til að stækka það.
Sérhæft og vel menntað starfsfólk heldur framleiðslukostnaði Algalífs í skefjum með nýsköpun og nýtingu hátæknilausna á öllum stigum. Því er náttúrulegt astaxanthín frá Algalíf mjög vel samkeppnishæft á alþjóðamarkaði, markaðshorfur eru góðar og sala gengur mun betur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Algalíf hefur getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir sjálfbærni, gæði og afhendingaröryggi.
Nýlega hlaut Algalíf hin virtu Alþjóðlegu GHP líftækniverðlaun, fyrst íslenskra fyrirtækja, sem besti framleiðandi á náttúrulegu astaxanthíni í heimi.
Algalíf hefur sett sér metnaðarfulla umhverfisstefnu sem lesa má um á vefsíðunni www.algalif.com Framleiðslan fer fram í stýrðu umhverfi innanhúss með umhverfisvænum orkugjöfum og ekkert jarðefnaeldsneyti er notað í ferlinu.
Notast er við sérstök LED ljós og tölvustýrð ljósa- og hitakerfi við ræktun örþörunganna í lokuðum rörakerfum sem þýðir að vatns-, raforku- og landnotkun er í lágmarki.
Binding á koltvísýringi er 80 tonn á ári en verður 250 tonn á ári og kolefnisfótsporið neikvætt sem því nemur. Náttúrulegt astaxanthin frá Algalíf er alþjóðlega vottað af Non-GMO Project.
Bjarni Benediktsson, Orri Björnsson og Kjartan Már Kjartansson eftir skóflustunguna.